Innlent

Salvör vill kæra fjölmiðla fyrir að segja af Facebookfærslu hennar

Jakob Bjarnar skrifar
Salvör telur að fjölmiðlar hafi brotið á sér vegna umfjöllunar um skrif hennar á Facebook.
Salvör telur að fjölmiðlar hafi brotið á sér vegna umfjöllunar um skrif hennar á Facebook. visir/anton brink
Salvör Kristjana Gissurardóttir, lektor í upplýsingatækni við HÍ, kannar nú réttarstöðu sína með það fyrir augum að kæra fjölmiðla fyrir að fjalla um gríðarlega umdeild skrif hennar á Facebook um helgina. Facebook telst opinber vettvangur.

Fréttastofa ræddi við Salvöru í seint í gærkvöldi og í morgun, en í máli hennar kom fram að hún væri nú að kanna stöðu sína. Og hún væri afar ósátt við að fjölmiðlar hafi fjallað um málið og hinn mikla ágreining sem braust út. Þeir fjölmiðlar sem hafa greint frá málinu eru Vísir og DV. Salvör fór þess á leit við Vísi að fréttin væri tekin úr birtingu. Við því var ekki orðið.

Í gærkvöldi ritaði Salvör svohljóðandi fyrirspurn inn á Facebookhóp sem heitir Fjölmiðlanördar, hópur áhugafólks um fjölmiðla og spurði: „Er einhvers staðar síða um siðareglur og lagaumgjörð varðandi fjölmiðla á Íslandi og hvað maður gerir ef maður telur brotið á sér af fjölmiðlum?“

Maðurinn á listmannalaununum

Þannig má ljóst vera að Salvör telur að á sér hafi verið brotið. Sem áður segir skrifaði Salvör gríðarlega umdeilda klausu þar sem hún lagði út af viðtali sem birtist í söfnunarþætti Stígamóta og Stöðvar 2. Þar greindi kona frá því að hún hafi átt í ofbeldisfullu sambandi, maðurinn vildi að hún gerði eitt og annað sem særði blygðunarkennd hennar. Það fylgdi sögunni að viðkomandi maður væri á listmannalaunum og hefði þar af leiðandi rúman tíma til að atast í henni. Þá stendur eftir, miðað við aðrar vísbendingar, að til þess að gera þröngur hópur manna kemur til greina. Salvör taldi vert að nafngreina manninn.

Salvör fullyrti ekki um það en lætur að því liggja að viðkomandi maður sé Steinar Bragi rithöfundur, en Salvör vísaði í umfjöllunarefni bóka hans í því sambandi.

Tók færsluna niður eftir ítrekaðar áskoranir

Fjölmargir, einkum úr bókmenntaheiminum, furðuðu sig á þessu og höfðu uppi stór orð um hversu ósmekklegt og hæpið það væri að kenna Steinar Braga við þennan gjörning. Þórarinn Leifsson rithöfundur færði þau skilaboð inn á athugsemdakerfi Facebook-síðu Salvarar að Steinar Bragi væri kominn með lögmann í málið. Var ítrekað skorað á Salvöru að taka þessar ávirðingar niður; krafa sem hún varð svo á endanum við seint í gærkvöldi. Það var eftir að hafa breytt færslunni með semingi og tekið út nafn Steinars Braga.

Í uppfærði frétt Vísis af því máli öllu kemur fram að Salvör hafi í gærkvöldi haft samband við Steinar Braga og beðið hann afsökunar á umræddri Facebookfærslu. Og þar stendur málið núna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×