Enski boltinn

Aldrei of seint að segja sorrí

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Yaya Toure fagnar um helgina.
Yaya Toure fagnar um helgina. vísir/getty
Margir ráku upp stór augu þegar byrjunarlið Manchester City birtist um klukkutíma fyrir leikinn gegn Crystal Palace á laugardaginn. Tíu af ellefu nöfnum á blaði komu lítið á óvart. En athygli vakti að Yaya Touré var óvænt mættur aftur í byrjunarlið Man City í fyrsta sinn í deildarleik síðan 23. apríl á þessu ári og í fyrsta sinn undir stjórn Peps Guardiola. Og Touré þakkaði traustið og skoraði bæði mörkin í 1-2 sigri Man City.

Fátt benti til þess Touré ætti afturkvæmt í lið Man City eftir atburði síðustu mánaða. Mikið hefur gengið á að tjaldabaki á Etihad en ásakanir hafa gengið á víxl á milli Guardiola og Touré, eða öllu heldur umboðsmanns Fílbeinsstrendingsins, Dimitri Seluk. Það er sami maður og kvartaði sáran í fjölmiðlum eftir að Touré fékk ekki köku frá Man City á 31 árs afmælinu sínu.

Rússneski umboðsmaðurinn fór mikinn eftir að Guardiola valdi Touré ekki í Meistaradeilarhóp Man City og kvartaði sáran yfir illri meðferð Spánverjans á skjólstæðingi sínum.

„Ef hann [Guardiola] vinnur Meistaradeildina þetta tímabilið mun ég fara til Englands og segja í sjónvarpi að Pep Guardiola sé besti knattspyrnustjóri í heimi," sagði Seluk. „En ef City mistekst að vinna Meistaradeildina vona ég að Guardiola hafi kjark til að segja að það hafi verið rangt af honum að niðurlægja frábæran leikmann eins og Yaya."

Guardiola hafði lítinn húmor fyrir þessari gagnrýni Seluk og sagði að Touré myndi ekki spila aftur fyrir Man City fyrr en hann og umboðsmaðurinn bæðust afsökunar.

Um tveggja mánaða störukeppni lauk loks fyrr í mánuðinum þegar Touré baðst afsökunar á framferði sínu og umboðsmannsins.

Guardiola tók afsökunarbeiðnina greinilega góða og gilda og valdi Touré í byrjunarliðið fyrir leikinn gegn Palace. Og miðjumaðurinn minnti hressilega á sig. Þegar sex mínútur voru til hálfleiks sendi Touré boltann á Nolito, fékk hann aftur og skoraði með skoti sem hafði viðkomu í varnarmanni Palace.

City-menn voru ekki upp á sitt besta á Selhurst Park og Conor Wickham jafnaði metin fyrir Palace á 66. mínútu. En lærisveinar Guardiola héldu áfram og sjö mínútum fyrir leikslok skoraði Touré sigurmarkið af stuttu færi eftir hornspyrnu Kevins De Bruyne. City fékk stigin þrjú, þökk sé manninum sem virtist ekki eiga sér neina framtíð hjá félaginu fyrir nokkrum vikum.

„Þetta var frábært því strákarnir hafa alltaf verið til staðar fyrir mig. Ég hélt áfram að brosa og vera einbeittur," sagði Touré himinlifandi að leik loknum. „Þetta var erfið staða en ég er mjög glaður og þakklátur stjóranum fyrir að leyfa mér að spila í dag."

Óvíst er hvað verður um hinn 33 ára gamla Touré, hvort hann fer í janúar eða næsta sumar, en af leiknum í fyrradag að dæma hefur hann enn ýmislegt fram að færa. Hann hefur ekki sömu hlaupagetu og áður en hann er ennþá góður í fótbolta og kann að koma sér í færi og klára þau. Og ef hann er einbeittur og tilbúinn að leggja sig fram getur hann nýst Man City í toppbaráttunni.

Guardiola leggur líf og sál í stjórastarfið og hann hefur engan tíma fyrir leikmenn sem eru ekki á fullri ferð. Það er ólíklegt að Touré komist upp með að labba um völlinn eins og hann gerði stundum á síðasta tímabili. Útileikurinn gegn Arsenal í desember í fyrra var lýsandi fyrir síðasta tímabil hjá Touré; hann rölti um völlinn megnið af leiktímanum en skoraði samt glæsilegt mark. Snilldin var enn til staðar en framlagið ekki.

Touré hefur reynst Man City ómetanlegur síðan hann kom til félagsins frá Barcelona sumarið 2010. Á sex árum hans á Etihad hefur Man City unnið tvo Englandsmeistaratitla, ensku bikarinn einu sinni og deildarbikarinn tvisvar.

Touré er einn af bestu leikmönnum í sögu Man City og það stefnir í vera hans hjá félaginu fái ánægjulegri endi, hvenær sem hann verður, en stefndi í fyrir nokkrum vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×