Innlent

Halda þarf bókum að börnum til að efla læsi

Sveinn Arnarsson skrifar
Bókahillurnar voru settar upp á degi íslenskrar tungu.
Bókahillurnar voru settar upp á degi íslenskrar tungu. vísir/auðunn
Oddeyrarskóla var gefin höfðingleg gjöf í síðustu viku frá nemendum, fyrrum starfsmönnum og foreldrum barna í skólanum; sérsmíðaðar bókahillur til að efla læsi. Aðstoðarskólastjóri skólans segir gjöfina ómetanlega og mikilvægt sé að veita fjármunum beint til að efla læsi í grunnskólum landsins.

Bókahillurnar eru fimm og eru miðsvæðis í skólanum. Mynda þær orðið „lestu“ og er ætlað að halda bókum nær börnum en áður.

Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarskólameistari Oddeyrarskóla á Akureyri.
„Við hefðum ekki getað með nokkru móti gert þetta fyrir það fjármagn sem okkur er útdeilt. Því söfnuðu nemendur og foreldrar ásamt fyrrverandi starfsfólki við skólann peningum til að láta sérsmíða bókahillurnar og kaupa nýjar bækur fyrir börnin," segir Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarskólastjóri.

Bókahillurnar voru formlega vígðar á degi íslenskrar tungu síðastliðinn miðvikudag. Börnin fengu sjálf að velja hvaða bækur voru keyptar í hillurnar svo líklegast sé að þær höfði til þeirra.

„Þetta er það sem skiptir mestu máli, að börnin fái nýjar bækur sem þau vilja lesa. Þannig aukum við læsið í skólum landsins, en til þess þarf fjármagn frá hinu opinbera,“ bætir Rannveig við.

Fréttablaðið sagði frá því 17. nóvem­ber að þriðjungur barna næði ekki viðmiðum um lesfimi og því brýnt að efla læsi grunnskólabarna. Verkefni menntamálaráðherra um að auka læsi barna var liður í því.

Veittir voru tugir milljóna í kynningarstarf herferðar menntamálaráðherra. Auglýsingastofan Árnasynir fékk til að mynda rúmar sjö milljónir og umboðsskrifstofan Prime fékk fimm milljónir króna en ástæða þess er söngur Ingólfs Þórarinssonar, oft kenndur við Veðurguði, á læsislaginu svokallaða.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×