Innlent

Segir nefndarskipun ráðherra dæmi um glataða stjórnsýslu

Sveinn Arnarsson skrifar
Fulltrúar bænda eiga þrjá fulltrúa í nefndinni.
Fulltrúar bænda eiga þrjá fulltrúa í nefndinni. vísir/gva
Ólafur Stephensen, formaður Félags atvinnurekenda, gagnrýnir harðlega skipun Gunnars Braga Sveinssonar landbúnaðarráðherra í samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga.

Ólafur Stephensen Ólafur Stephensen, nýr framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda
Bændasamtök Íslands eiga þrjá fulltrúa og atvinnuvegaráðuneytið fimm af tólf fulltrúum í nefndinni.

„Þetta er glötuð stjórnsýsla. Við atkvæðagreiðslu í þinginu kom fram vilji þingsins að efna til þjóðarsamtals um stefnu í landbúnaðarmálum með því að kalla til breiðan hóp hagsmunaaðila til að móta stefnuna upp á nýtt í breiðri sátt,“ segir Ólafur „Fyrir það fyrsta klúðrar ráðherra formlegu hliðinni með að vera mánuði of seinn að skipa hópinn. Þegar hann hefur svo skipað í nefndina kemur í ljós að hann hefur hunsað mikilvæga hagsmunaaðila, til að mynda Félag atvinnurekenda sem hefur haft sig hvað mest í frammi í þessari umræðu um landbúnaðarmál.“

Í tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu þann 21. október síðastliðinn segir að kveðið sé á um í lögunum að tryggja skuli aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni. Afurðastöðvar eiga hins vegar engan fulltrúa í nefndinni.

„Þegar ráðherra samþykkir að veita launþegahreyfingunni tvo fulltrúa fjölgar hann í nefndinni úr sjö í tólf. Samt sem áður er ekki pláss í nefndinni fyrir talsmenn innflytjenda landbúnaðarafurða. Atvinnulífið situr eftir með aðeins einn fulltrúa,“ segir Ólafur.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×