Haukar komust áfram í Áskorendabikar Evrópu í handbolta eftir fimm marka sigur 27-22 á ítalska félaginu Jomi Salerno ytra í dag.
Haukar sömdu um að leikirnir færu fram ytra í Salerno á Ítalíu en Haukar unnu fyrri leikinn í gær 23-19 í heimaleik sínum.
Haukakonur leiddu 15-13 í hálfleik á Ítalíu í dag og náðu að bæta við forskotið eftir því sem leið á leikinn.
Maria Ines Da Silva Pereira og Ragnheiður Ragnarsdóttir voru markahæstar í lið Hauka með sex mörk en Ramune Pekarskyte bætti við fimm mörkum.
Fögnuðu þær að lokum öruggum sigri en Haukakonur sitja í þriðja sæti Olís-deildar kvenna þegar vetrarfríið er nýhafið.

