Viðskipti innlent

Fjörutíu og þrjú kauptilboð bárust í eignasöfn Íbúðalánasjóðs

Sæunn Gísladóttir skrifar
Íbúðalánasjóður selur íbúðir um land allt.
Íbúðalánasjóður selur íbúðir um land allt. Vísir/Vilhelm
Alls bárust 43 kauptilboð í eignasöfn Íbúðalánasjóðs sem boðin voru til sölu í opnu söluferli fyrir áramót. Tilboð bárust í öll 15 eignasöfnin sem auglýst voru, segir í tilkynningu.

Um er að ræða þriðjung þeirra íbúða sem nú eru í eigu sjóðsins eða 504 íbúðir alls. Eignasöfnin eru misjöfn að stærð og gerð. Samsetning eigna í hverju safni miðast við að hagkvæmt geti verið að reka um þær leigufélög og eru eignir í hverju þeirra að jafnaði í sama byggðarlagi.  Ákveðið var að hafa hvert eignasafn hóflegt að stærð til þess að það væri á færi fleiri fjárfesta að bjóða í þau. Sala eignanna er í takti við markmið Íbúðalánasjóðs um að selja meirihluta fasteigna sjóðsins á þessu ári. Vonast sjóðurinn til að stuðla um leið að auknu framboði af íbúðarhúsnæði víða um land. 

Sjá einnig: Íbúðalánasjóður selur 504 fasteignir um land allt

Verkefnisstjórn söluferlisins mun nú fara yfir tilboðin og kanna hvort þau séu öll í samræmi við skilmála söluferlisins. Í kjölfarið mun hún stilla upp samanburði á tilboðunum til að hægt sé að meta hvaða tilboð telst hagstæðast.

Þeim fjárfestum sem gerðu hagstæðustu tilboðin verður send tilkynning þess efnis á mánudag. Fjárfestinum sem á hagstæðasta tilboðið ber að greiða 1% kaupverðsins ekki síðar en 11. febrúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×