Lífið

Styrkir listir, forvarnir, íþróttir og fjölmenningu

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Ánægðir styrkþegar stilltu sér upp til myndatöku.
Ánægðir styrkþegar stilltu sér upp til myndatöku. Mynd/Norðurorka
„Eins og áður eru mörg verkefni á sviði menningar og lista og starfs með börnum og unglingum,“ segir Baldur Dýrfjörð, staðgengill forstjóra Norðurorku, um styrki sem fyrirtækið veitti í vikunni.

Samtals var sjö milljónum króna útdeilt til 43 samfélagsverkefna á Eyjafjarðarsvæðinu og í Þingeyjarsveit.

 

Baldur Dýrfjörð er staðgengill forstjóra Norðurorku.Mynd/Úr einkasafni
Baldur segir nokkra áherslu lagða á forvarnarverkefni af ýmsu tagi og þau sem tengist fjölmenningu, nýbúum og flóttafólki.

Eitt af því sem á að styrkja tengsl milli Íslendinga og innflytjenda er Alþjóðlegt eldhús. Það er matarhátíð í Hofi sem hefur verið áður og notið vinsælda, að sögn Baldurs. 

Íslenskuþorpið er annað, það er tungumálakennsla fyrir nýbúa.

 Baldur nefnir líka lestrarátak fyrir innflytjendur sem Lionsklúbburinn Ylfa stendur fyrir.

„Klúbburinn óskaði eftir styrk til kaupa á námsgögnum sem munu nýtast flóttafólkinu sem hingað kemur á næstunni, meðal annars verða keypt spil sem eiga að ná til krakkanna.

Svo er Rauði krossinn lykilaðili í móttöku flóttamanna, hann stendur í endurbótum á húsnæði sínu hér á Akureyri og við hjálpum þeim aðeins með það.“



Þau verkefni sem tengja má árinu 2016 sérstaklega eru gerð útilistaverks í tilefni af 100 ára fæðingarafmæli Elísabetar Geirmundsdóttur listakonu og minnismerki um Látra-Björgu skáldkonu í tilefni 300 ára fæðingarafmælis hennar. 

Til að viðhalda þekkingu á viðgerð gamalla húsa var veittur styrkur og líka til kynningar á kúbverskri tónlist í grunnskólum. Þannig mætti lengi telja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×