Lífið

Þeir gömlu eru flottastir

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Strákarnir eru reynsluökumenn,” segir Sigurvin sem hér er á milli þeirra Arnars og Ara.
.
Strákarnir eru reynsluökumenn,” segir Sigurvin sem hér er á milli þeirra Arnars og Ara. . Mynd/úr einkasafni
„Ég á ótrúlegustu bíla. Það eru svona tólf til fimmtán ár frá því ég hóf að safna þeim skipulega en nokkrir eru frá því ég var lítill,“ segir Sigurvin Jónsson sölustjóri hjá BM Vallá á Akureyri sem hefur stillt upp smábílasafni sínu á vinnustaðnum að Austursíðu 2.

Þar eru um 1300 bílar og sá elsti 90 ára að sögn eigandans. „Ég er nýbúinn að setja safnið upp hér í nokkuð marga skápa, það vekur athygli og ég tek á móti hópum hér utan vinnutíma. Hef svo velviljaða yfirmenn.“

 

Í safninu eru um 1300 smábílar frá ýmsum tímum.
Löggubílar víðsvegar að úr heiminum eru í safni Siguvins. Hann hefur sérlega gaman af keppnis- og rallýbílum, á yfir 100 Ferrari og helling af rússneskum bílum. Hvar nær hann í þetta allt?

„Ég versla á E-bay, fer á skran-og bílskúrssölur og hirði allt sem að mér er rétt. Svo býtta ég við aðra safnara. Þetta er skemmtilegt áhugamál og stórt úti um allan heim. Það eru haldnar smábílasýningar í íþróttasölum í Bretlandi.

Sigurvin kveðst hafa verið öfundaður af vinum sínum af því hvað hann átti marga bíla sem strákur.

 

Ferrari eru flottir.
„Ég bjó í Svarfaðardal þegar ég var gutti en pabbi vann í sláturhúsinu á Svalbarðsströnd og kom alltaf við á Akureyri á föstudögum á heimleið og keypti bíl handa mér. Oftast Corgi. Ég vildi alveg eiga þá bíla núna í upprunalegum umbúðum, þeir eru verðmætir.

Dönsku bílarnir Tekno eru samt enn dýrari. Þeir hlaupa á tugum eða hundruðum þúsunda króna eintakið ef þeir eru í original kassa og í topp standi. En fátækur sölumaður á Íslandi hefur ekki bolmagn í það. Þó hafa fyrstu bílarnir sem ég safnaði hækkað í verði á síðustu árum.“



Brotabrot af safninu.
Nokkra Corgi bíla frá pabba sínum kveðst Sigurvin eiga enn - ekki marga. Söfnunin hafi byrjað þegar hann fór að skoða þá.

„Ég sló þessu merki upp á netinu og sá hverskonar söfnun var í gangi, þá fór ég að kaupa einn og einn og það tekur engan endi. Fólk er líka að færa mér bíla úr geymslunni, ég tek fúslega við þeim þó þeir séu illa farnir því ég geri þá upp líka.“

 

Að laga James Bond- og Batman bílana segir Sigurvin eins og að gera við úr, allskonar smáatriði sem gaman sé að glíma við. „Það er líka sjarmi yfir sumum þessum gömlu bílum sem eru með rispur og beyglur. Þeir hafa sál.“



Synir Sigurvins Ari og Arnar, sjö og fimm ára, hafa að sjálfsögðu gaman af bílunum. „Strákarnir eru aðallega reynsluökumenn,“ segir Sigurvin. „Þeir eru með mér í þessu, enda erfingjar krúnunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×