Lífið

Frábær viðbrögð um alla Evrópu

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Agent Fresco á góðri stund í Leeds.
Agent Fresco á góðri stund í Leeds.
Hljómsveitin Agent Fresco lauk nýverið við sína stærstu og umfangsmestu tónleikaferð til þessa. Tónleikarnir voru þrjátíu talsins og kom sveitin víða við í Evrópu á ferð sinni. „Þetta var þriðji langi túrinn okkar en þessi var ögn lengri en hinir. Við héldum af stað 18. nóvember og komum heim 21. desember og spiluðum um 30 tónleika. Flesta í Þýskalandi en við fórum um víðan völl eða til Hollands, Bretlands, Skotlands, Frakklands, Þýskalands, Póllands, Tékklands, Austurríkis, Slóveníu, Ítalíu, Svíþjóðar, Danmerkur, Finnlands og Rússlands,“ segir Þórarinn Guðnason, gítarleikari sveitarinnar, spurður út í ferðalagið mikla.

Hljómsveitin gisti meðal annars í gömlu slóvensku fangelsi.Mynd/Þórarinn Guðnason
Alls kyns tónleikastaðir

Agent Fresco hafði áður spilað í nokkrum af þeim borgum sem sveitin heimsótti í þessari tónleikaferð og segist Þórarinn hafa fundið fyrir því að aðdáendahópurinn hafi stækkað í þeim borgum. „Við höfðum spilað í sumum þessara borga áður og fundum alveg greinilegan mun. Við spiluðum á tónleikastöðum sem rúma alveg frá um 150 manns upp í 600 manns. Stærð staðarins segir þó lítið um stemninguna sem myndast á tónleikunum og sumir af eftirminnilegustu tónleikunum voru á litlum stöðum. Til dæmis voru tónleikarnir á litlum klúbb tæpum tveimur vikum eftir árásirnar á Bataclan í París ótrúlega magnþrungnir og fallegir,“ útskýrir Þórarinn.

Agent Fresco gaf á síðasta ári út sína aðra breiðskífu, Destrier, og skoraði hún mjög hátt hjá tónlistargagnrýnendum og var án nokkurs vafa ein af plötum ársins.

Tónleikastaður undir lestarbraut í miðborg Vínar.mynd/Liam Sexton
Rifist um bestu sætin



Meðlimir sveitarinnar náðu að nýta tímann til þess að fræðast um þá staði sem þeir heimsóttu en tíminn var þó af skornum skammti. „Við vorum einir á ferð en nánast alltaf með upphitunarbönd. Það var skemmtilegt því þetta var oftast lókal fólk sem gat frætt mann aðeins um svæðið þó að lítill tími hafi gefist til að skoða sig um í borgunum sem við spiluðum í. Svo voru nokkrir tónleikar þar sem við vorum að hita upp fyrir stærri hljómsveitir.“

Löng ferðalög geta tekið á en hvernig fór um strákana þennan mánuð? „Við ferðuðumst um allt á „van“ sem var sérstaklega hannaður fyrir svona ferðalög. Breski tourmanagerinn okkar hann John keyrði, Arnór sat við hliðina á honum sökum bílveiki og ég, Keli, Vignir og Jói hljóðmaður rifumst um bestu sætin aftur í. Það var eitt rúm sem við lögðum bann á til að minnka hættu ef við skyldum lenda í árekstri. Svo gistum við á misgóðum hótelum í hverri borg,“ segir Þórarinn.

Frábær stemning á tónleikum sveitarinnar í Moskvu.
Mikill meðbyr þessa dagana



Ég spyr Þórarin út í rokkstjörnulífernið, hvernig voru menn að meta lífernið á túrnum? „Þetta verður furðuleg rútína eftir ekki mjög langan tíma. Vakna, keyra mestallan daginn, róta inn, borða, spila, hitta fólk, róta út, keyra upp á hótel og endurtaka svo daginn eftir. Það er lítið svigrúm fyrir djamm og annað rugl í svona ferð og ég reyni að nýta þann litla frítíma sem við höfum til að hlaða batteríin eða gera eitthvað pródúktívt,“ útskýrir Þórarinn.

Agent Fresco fékk frábær viðbrögð á tónleikum sínum og segist Þórarinn finna mikinn meðbyr þessa dagana. „Það sem stóð þó helst upp úr í tónleikaferðinni voru viðbrögðin sem við fengum frá fólki. Við finnum ótrúlegan meðbyr þessa dagana og það er greinilegt að fólk er að gefa sér tíma í að hlusta og pæla mikið í tónlistinni okkar bæði hér heima og úti sem er ótrúleg tilfinning og gerir allt harkið svo algerlega þess virði. Það voru líka nokkrir tónleikar sem voru sérstaklega eftirminnilegir. Tónleikarnir í London, Moskvu, Dresden og París voru til dæmis einstaklega góðir. Fólk var líka oft uppátækjasamt með skemmtilegar gjafir og notaði til dæmis myndina af vinkonu okkar henni Hebu sem prýðir framhliðina á Destrier til að skreyta köku og bassa­trommuskinn.“

Tourmanagerinn, John Helps sá um að skipuleggja, keyra og selja varning.
Á leið í aðra tónleikaferð



Agent Fresco á í nógu að snúast á næstunni og er að fara í aðra tónleikaferð síðar í þessum mánuði og þá með bandarísku rokkhljómsveitinni Coheed and Cambria. „Við erum að fara aftur út í janúar til að fara að spila með hljómsveitinni Coheed and Cambria sem er frábært tækifæri fyrir okkur til að ná til nýrra hlustenda enda mjög stórt band. Svo erum við bara byrjaðir að huga að næstu plötu og ég er svolítið í hugmyndavinnunni núna en fer á fullt á næstunni þegar tími gefst,“ segir Þórarinn.

Jóhann Rúnar Þorgeirsson hljóðmaður hélt upp á þrítugsafmælið sitt á túrnum.
Destrier kaka sem þeir félagar fengu frá breskum hóp sem elti sveitina á öll giggin í Bretlandi.mynd/arnór dan

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×