Lífið

Feðgin stjórna sama útvarpsþættinum með tuttugu ára millibili

Guðrún Ansnes skrifar
Þau taka sig býsna vel út við hljóðnemann, það verður einfaldlega ekki tekið af þeim.
Þau taka sig býsna vel út við hljóðnemann, það verður einfaldlega ekki tekið af þeim. Vísir/Anton Brink
„Nei, ég get ekki sagt að þetta hafi verið neinn draumur í æsku, ég fór mikið í vinnuna með honum þegar ég var lítil, og hef alltaf verið áhugsöm um tónlist, svo þetta bara gerðist,“ segir útvarpskonan Kristín Ruth Jónsdóttir, sem nú er tekin við sem umsjónarmaður Íslenska listans, rétt eins og faðir hennar, Jón Axel Ólafsson, gerði fyrir rúmum tuttugu árum.

Aðspurð hvort pabbi hennar hafi beitt hana þrýstingi um að láta til sín taka á öldum ljósvakamiðilsins, svarar Kristín til að svo hafi alls ekki verið, og Jón Axel bætir um betur og þvertekur fyrir það. „Ég var nú að vona ekki,“ segir hann og þau skella bæði upp úr, án þess að gefa frekari skýringu á því, og hann bætir við: „En hún velur þetta alveg sjálf.“

Engin pressa frá pabba

„Þetta er allt komið til vegna einskærs áhuga, mér finnst þetta skemmtilegt umhverfi, og það er alltaf eitthvað nýtt að gerast, sem ég kann vel við,“ segir Kristín sem er langt frá því að vera nýliði í útvarpinu, en burtséð frá að hafa verið að slæpast í hljóðverinu með pabba sínum frá blautu barnsbeini, hefur hún verið reglulegur gestur í viðtækjum landans undanfarin tíu ár eða svo, á öllum tímum sólarhringsins. „Ég byrjaði á næturnar og vann mig síðan upp eins og maður gerir, hér er ekkert kippt í neina spotta,“ skýtur hún að og brosir sínu breiðasta.

Upphaf Íslenska listans má rekja allt aftur til ársins 1986, og sá Jón Axel þá um hann á Bylgjunni. Um aldamótin færðist hann svo yfir á útvarpsstöðina FM 957 og hefur þar lifað góðu lífi síðan.

Jón Axel í góðum félagsskap í hljóðveri Bylgjunnar á upphafsári þeirrar útvarpsrásar.
Bakterían er í fjölskyldunni

En Kristín er ekki sú eina í fjölskyldunni sem bitin var af útvarpsbakteríunni, því bróðir hennar og örverpi Jóns Axels, Ólafur Ásgeir Jónsson, hefur einnig fetað þessa braut og situr vaktina reglulega á FM 957. „Já og svo var Gassi bróðir pabba með mér í morgunþættinum Zúber, og Sigga Lund frænka okkar líka. Við erum svona lítil útvarpsfjölla,“ segir hún og skellihlær.

Aðspurð hvort hún hafi tekið við ráðleggingum frá pabba gamla sem hún komi til með að nýta sér við gerð listans, segist hún vissulega hafa þegið mörg góð ráð og leiðbeiningar frá honum í gegnum tíðina, en hún haldi mest upp á og nýti sér óspart ráðið um að vera hún sjálf. „Það er númer eitt,tvö og þrjú og svoleiðis skín alltaf í gegn hjá manni.“

Kristín telur ólíklegt að hún bryddi upp á einhverjum stórvægilegum breytingum á umgjörð listans, enda sé um nokkuð klassískt form að ræða sem hafi gengið ágætlega undanfarin þrjátíu ár. „Ég kem kannski bara með eitthvert Kristínar-tvist á þetta,“ segir hún og tekur ekki fyrir að hún fái gamla brýnið kannski til að kynna inn nokkur sæti við tækifæri, enda hafi hann engu gleymt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×