Viðskipti innlent

Fjórtán starfsmönnum Símans sagt upp

Sæunn Gísladóttir skrifar
Á einungis áratug hefur starfsfólki Símans og dótturfélaga fækkað um rúman þriðjung eða ríflega 400.
Á einungis áratug hefur starfsfólki Símans og dótturfélaga fækkað um rúman þriðjung eða ríflega 400.
Fjórtán starfsmönnum Símans hefur verið sagt upp störfum, samkvæmt upplýsingum frá Símanum eru þeir ekki bundnir við eitt svið. Ekki er um hópuppsögn að ræða. Samkvæmt reglum um hópuppsagnir flokkast þær sem slíkar einungis ef yfir þrjátíu manns er sagt upp störfum hjá fyrirtæki með yfir þrjú hundruð starfsmenn, en um átta hundruð starfsmenn starfa hjá samstæðunni.

Í tilkynningu frá Símanum kemur fram að fyrirtækið þurfi að sníða sér stakk eftir vexti. Hvert spor sé tekið með það í huga að fjöldi starfsmanna sé í samræmi við markmið um gæði þjónustunnar og að viðskiptavinum sé boðið samkeppnishæft verð.

Á síðustu árum hefur samkeppni á fjarskiptamarkaði harðnað og eðli þjónustunnar breyst. Á einungis áratug hefur starfsfólki Símans og dótturfélaga fækkað um rúman þriðjung eða ríflega 400. Að öllu óbreyttu eykst launakostnaður samstæðunnar um um það bil 500 milljónir króna vegna kjarasamningsbundinna hækkana. Þessi erfiða ákvörðun er tekin til að verja samkeppnishæfni Símans til framtíðar, segir í tilkynningu.

Framkvæmdastjórn Símans hefur síðustu misseri tekið breytingum. Þeim hefur fækkað um tvo, í fjóra, á tæpum tveimur árum. Í yfirstjórn samstæðunnar eru nú sjö í stað fjórtán áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×