Lífið

Fara ævintýraleiðir í löngum brekkum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
María Ólöf og Sara Mjöll hafa skíðað frá því þær muna eftir sér.
María Ólöf og Sara Mjöll hafa skíðað frá því þær muna eftir sér. Vísir/Anton Brink
Hvernig fenguð þið áhuga á skíðaíþróttinni, stelpur?

Sara Mjöll: Ég smitaðist af mömmu og pabba, þau eru skíðafólk.

María Ólöf: Ég veit það ekki alveg, ég hef bara skíðað frá því ég var lítil.

Hvenær byrjuðuð þið að æfa ykkur og hvar?

Sara Mjöll: Ég fór fyrst á skíði þegar ég var þriggja ára uppi í Bláfjöllum og byrjaði að æfa fjögurra ára í Ármanni.

María Ólöf: Ég prófaði fyrst skíði í Austurríki þegar ég var tveggja ára og fór svo að æfa fimm ára.

Getið þið æft ykkur nálægt heimilinu?

Sara Mjöll: Nei, bara í Bláfjöllum. Þar förum við í háar brekkur.

María Ólöf: Stundum kemur alveg brjálað veður og þá förum við bara inn í skála.

Hafið þið meitt ykkur á skíðum?

Sara Mjöll: Já, ég tognaði á hnénu þegar ég var fjögurra ára og María Ólöf var að keppa á Andrésar Andar leikunum.

María Ólöf: Ég klessti einu sinni á tré á Ítalíu og bólgnaði á nefinu og fékk glóðarauga, í sömu ferð klessti ég á konu og tognaði á hnénu líka.

Farið þið oft í skíðaferðir til útlanda?

María Ólöf: Við höfum farið oft til Austurríkis og Ítalíu. Stundum með fjölskyldunni og líka með æfingakrökkum.

Sara Mjöll: Þar er mjög gaman að skíða í löngum brekkum og fara niður ævintýraleiðir og vera í stólalyftu sem er með hita í rassinum og skýli.

María Ólöf: Skemmtilegast við að æfa á skíðum er að fara í braut í góðu veðri og gista í Ármannsskálanum með öllum krökkunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×