Lífið

Ævintýri líkast

Lilja Björk Hauksdóttir skrifar
Hin áttræða Ásdís Karlsdóttir sat fyrir í auglýsingatökum í vikunni en það vakti athygli að hún gæfi kost á sér í starfið enda fyrirsætur yfirleitt yngri en hún er. Þó umsóknin hafi verið send inn í gríni segir Ásdís ákveðna alvöru hafa fylgt henni því meiri fjölbreytni vanti í tískuheiminn



Ásdís Karlsdóttir segir það ekki hafa verið gamlan draum um fyrirsætustörf sem varð til þess að hún gaf kost á sér þegar 66°N auglýsti eftir módelum á Face­book.

„Nei, guð almáttugur, það var það ekki. Sagan á bak við þetta er þannig að ég var að leika mér í tölvunni og tók próf á Face­book sem átti að segja mér hvað hentaði mér að starfa við og svarið var módel, sem mér fannst fyndið. Svo sá ég að að það voru ótal störf í boði hjá 66°N, ég lækaði færsluna þeirra, setti inn myndir af mér og spurði hvort þeir vildu fá eina 80 ára. Viðbrögðin urðu þvílík,“ segir Ásdís kát.

Ásdís er glæsileg kona.
Fædd fyrirsæta



Fyrirtækið setti sig strax í samband við Ásdísi og fór hún í auglýsingatökur í fyrradag sem hún segir að hafa verið ævintýri líkast.

„Við gengum um í Hlíðarfjalli þar sem ég var mynduð í alls kyns fínerís úlpum sem ég vildi óska að ég ætti allar saman. Fyrirsætan ég þurfti aðallega bara að standa bein og horfa í vélina, hann sagði að ég hefði þetta allt á hreinu. Þetta var miklu meira ævintýri en ég ætlaði mér nokkurn tíma að fara út í en ég hef gaman af svona uppákomum. Ég átti alls ekki von á að þeir hefðu samband við mig en ég sprella stundum og framkvæmi án þess að hugsa,“ segir Ásdís og hlær.

Öllu gamni fylgir alvara



Þó þetta hafi allt verið í gamni gert í upphafi hjá Ásdísi segir hún þó að einhver alvara hafi verið á bak við það.

„Mér finnst ekki sýnt nógu mikið af fötum fyrir allar tegundir fólks, bæði karla og konur. Það er erfitt fyrir fullorðna konu að kaupa sér föt þegar hún sér aldrei neina álíka henni í þeim. Fólk er misjafnt í laginu og fyrirtæki sem framleiða föt þurfa að sýna fólk í öllum stærðum og gerðum í fötunum. Þó þetta hafi verið sprottið af gríni þá notaði ég tækifærið þegar ég sá viðbrögðin og sagði það sem mér fannst,“ útskýrir Ásdís.

Ásdís hefur mikinn áhuga á tísku. Hún segir stílinn sinn vera látlausan. MYNDIR ÚR EINKASAFNI
Skilaboðin komust til skila að þessu sinni en hún telur þó að það verði ekki til langframa. „Ég hef nú ekki það mikið sjálfsálit,“ segir hún létt í bragði.

Alltaf verið fatasjúk



Þó Ásdís hafa ekki alið þann draum í brjósti að verða fyrirsæta segist hún alla tíð hafa verið fatasjúk en ekki haft ráð á því að vera í því sem hana langaði til.

„Ég hef einstaklega gaman af því að horfa á falleg föt og horfa á föt á alla vega fólki. Ég spekúlera mikið í fötum og hvernig þau klæða fólk. Helst fæ ég þó innblástur úr bíómyndum og tískublöðum. Annars var mamma mín minn uppáhaldshönnuður á meðan hún lifði. Hún saumaði á mig til þrjátíu ára aldurs og hún var svo flink að ég gat bara bent á flík í blaði og hún saumaði hana.“

Tónlistarmaðurinn Kött Grá Pjé er barnabarn Ásdísar. Henni finnst gaman á tónleikum hjá honum.
Hreyfing og jákvæðni



Ásdís lítur einstaklega vel út og myndi að flestra mati sóma sér vel sem starfandi fyrirsæta þó hún vilji ekki taka í sama streng. Hún segir það algjört lykilatriði að hreyfa sig reglulega og vera jákvæður.

„Það eru nú svo margar konur í dag sem líta vel út, þetta er bara eiginlega lúxuslíf ef maður fær að lifa lengi án þess að vera mjög markaður af ellinni. Ég er með slitgigt og með sjálfsofnæmissjúkdóm sem gerir mig flekkótta. Svo er ég með exem og astma en það er hægt að fá eitthvað við öllu í dag. Þó einhverjir kvillar hrjái mann þá líður manni vel ef maður er glaður og ánægður innra með sér og mætir hinu bara.“

Ásdísi finnst gott að verja tíma með fjölskyldunni en hún á sex börn og barnabörnin eru hátt í tuttugu.
Yfirleitt alltaf gaman

Hreyfingu hefur Ásdís stundað alla tíð enda kenndi hún íþróttir í áratugi, fyrst í Barnaskóla Akureyrar og Gagnfræðaskóla Akureyrar og svo síðustu tuttugu árin sem hún kenndi við VMA.

„Ég reyni að fara sem oftast í sund. Svo fer ég út að ganga á hverjum degi og ef ég kemst ekki út þá hreyfi ég mig hérna heima hjá mér. Ég geri mínar æfingar, er mikið fyrir jóga og hugleiði á hverjum degi. Það þarf líka að hugsa um sálina.“

Ásdís hefur mikinn áhuga á tísku og fötum. „Á þessari mynd er ég ekki í mínu allra fínasta. Þetta er svona dæmigerður leikhúsfatnaður. Skóna keypti ég fyrir 46-47 árum.“ Mynd/Auðunn
Ásdís segir íþróttakennsluna hafa átt vel við sig og að henni hafi alltaf þótt gaman í vinnunni.

„Mér finnst yfirleitt alltaf gaman. Ef mér leiðist þá ýti ég bara við mér og breyti því sem ég er að gera. Mitt helsta mottó er að láta mér nægja það sem ég hef og vera ánægð og þakklát fyrir það sem ég fæ. Að geta gert öðrum til geðs og gleðjast yfir því,“ segir þessi áttræða fyrirsæta brosandi og segist hlakka til að njóta lífsins og láta börnin og barnabörnin dekra við sig. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×