Lífið

„Ég mun sigrast á þessu og læra að elska örin mín“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Steinunn ásamt syni sínum sem kom í heiminn í september.
Steinunn ásamt syni sínum sem kom í heiminn í september.
„Ég er ekki komin á þann stað að elska örin mín, en mér skal takast það,“ segir Steinunn Edda Steingrímsdóttir, förðunarfræðingur sem bloggar á vefsíðunni Króm. Hún greinir frá því að hún glími við ofsakvíða og áfallastreituröskun eftir erfiða fæðingu sem hún sé að vinna úr.

Allir sem lesið hafa færslu Steinunnar Eddu er ljóst að ekki hefur verið auðvelt að stíga fram og segja sögu sína. Hún segist í samtali við Vísi hafa áttað sig á því að það væri mikilvægur hluti af bataferlinu að vera opin og ófeimin varðandi örin.

Steinunn Edda, sem er búsett í Danmörku, fæddi son í september. Hún gekkst undir bráðakeisara en dagana á eftir minnkaði bumban ekkert og hún fann fyrir miklum verkjum sem náðu yfir allan magann. Læknarnir komust að því að Steinunn var með göt á þörmunum sem leystu loft inn á kviðinn. Fór hún í aðgerð af þeim sökum aðeins fimm dögum eftir fæðingu.

Dvölin á spítalanum með kærastanum og nýfæddum syni varði í tvær vikur. Steinunn segist ekki hafa getað staðið á fætur án aðstoðar og mátti ekki halda á barninu sínu án þess að sitja eða liggja. Ástæðan var sú að hún var nú ekki aðeins með skurð þvert yfir magann eftir keisarann heldur einnig skurð frá bikinilínu og upp fyrir nafla útaf þarmaaðgerðinni.

Steinunn ásamt syni hennar sem kom í heiminn í september.
Allt í lagi að vera reið

Steinunn merkir færslu sína með merkinu #ShareYourScars sem mætti túlka sem „deildu örunum þínum“. Hún segist vita að margir séu á sama stað og hún, séu með ummerki um að hafa eignast barn á líkamanum og eiga erfitt með að sætta sig við örin. Hún segist í færslunni skammast sín fyrir að hlutir á borð við að geta ekki farið í bikiní eða magabol fari í taugarnar á henni, láti hana gráta, vera reiða og upplifa vonleysi.

„Þetta eru hlutir sem skipta engu hjartans máli, ekki í alvöru. En þegar að yfirborðskenndin læðist aftan að mér þá skiptir þetta mig miklu máli.“

Hún ítrekar að hún sé þakklát fyrir heilbrigða barnið sitt en hún megi alveg vera reið.

„Ég hef staðið sjálfa mig að því segja hluti eins og: „Ég er ógeðsleg og ég er náttúrulega ónýt.“ Þetta eru setningar sem að ég ætla aldrei að segja aftur. Ég er ekki ónýt, ég er ekki ógeðsleg - ég er bara ég.“

Ör eftir keisara, magadren & magaskurðaðgerð á 5 dögum. Ör sem að láta mèr líða illa með útlitið mitt, ör sem draga úr...

Posted by Steinunn Edda Steingrímsdóttir on Thursday, February 18, 2016
Lykilspjall við forvitinn vin

Steinunn Edda segir fólkið í kringum hana hafa áttað sig á því fljótlega eftir fæðingu að eitthvað var að. Hegðun hennar var öðruvísi en allajafna. Hún er venjulega mjög virk á samfélagsmiðlum, hvort sem er Facebook, Snapchat eða Instagram, en þar var óvenjulega lítið að frétta. Vinur hennar hafi spurt hana hreint út hvað væri að og verið afar forvitinn

„Hann spurði hvort hann mætti sjá örið. Ég var mjög hikandi. Hann tók mig á tal og negldi mig í mínum málum. Spurði af hverju mér þætti vesen að sýna þetta?“ Samtalið hafi hjálpað henni mikið og hún farið að hugsa hlutina öðruvísi.

Steinunn Edda kom heim til Íslands í desember og var í fríi í um tvo mánuði. Í rólegheitum og hversdagsleikanum hér heima hafi hún áttað sig á því að hún þyrfti að vinna frekar úr vandamáli sínu. Það hafi í raun komið aftan að henni en það sé einkenni áfallastreituröskunar. Hún hafi í framhaldinu áttað sig á því að það væri ekki nóg að ræða málin við kærastann, fjölskyldu og vini. Hún hafi þurft faglega aðstoð og skammist sín ekkert fyrir að þiggja hana.

Steinunn gat fyrst haldið á syni sínum án þess að vera sitjandi eða liggjandi þegar hann var sex vikna gamall. Myndin var tekin við það tilefni.
Ákvað að ofhugsa ekki birtinguna

Steinunn Edda er komin aftur til Kaupmannahafnar og lét svo sannarlega allt flakka með bloggfærslu sinni í dag. Vafalítið finna margir stuðning í færslu Steinunnar. Hún segir margt hafa farið í gegnum hugann áður en hún birti færsluna.

„Þetta var mjög stressandi og ég var alls ekki viss um að ég væri tilbúin,“ segir hún. Hvað ef einhver mistúlkar færsluna eða sér eitthvað neikvætt við hana? Hún hafi lokað á þær hugsanir.

„Í staðinn fyrir að ofhugsa málið ákvað ég að kýla á þetta. Þetta er ekkert sem ég á að skammast mín fyrir. Þetta er mjög stórt og mikilvægt skref í bataferlinu,“ segir Steinunn við Vísi.

Steinunn Edda með prinsinum í janúar.
Öflugt bakland

Hún ætlar að taka á málinu með þolinmæðina og æðruleysið að vopni. Hún sé enn að gróa, húðin gangi til baka, hún sjái mun á hverjum degi og verði betri og betri. Hún sé þó með ör á sálinni.

„Ég er með ör eftir keisara, ég er með ör eftir magadren og magaskurðaðgerð. Ör sem láta mér líða illa með útlitið mitt, ör sem draga úr sjálfstraustinu mínu, ör sem ég ætla samt ekki að láta stjórna lífinu mínu. Ör sem að ég ætla að læra að þykja vænt um, ör sem færðu mér fullkomna barnið mitt. Lífshættulegir atburðir skilja eftir sig ummerki, bæði á sál og líkama, ég er að vinna í sálinni, líkaminn er að vinna úr sínu á sinn hátt. En ég mun sigrast á þessu og læra að elska örin mín.“

Steinunn þakkar baklandi sínu fyrir hve vel gangi í bataferlinu. Kærastinn hafi verið hennar stoð og stytta, til dæmis eftir fæðinguna og hún eigi góðan hóp fjölskyldu og vina sem sé alltaf tilbúinn að hlusta á hana og hjálpa, hvort sem er í Danmörku eða á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×