Lífið

Hálf skrítin tilfinning að vera orðinn fimmtugur

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Það var ágætt að enda einn feril og hefja annan,“ segir Hörður sem lagði fótboltaskóna á hilluna og byrjaði á Stöð 2 árið 2001.
„Það var ágætt að enda einn feril og hefja annan,“ segir Hörður sem lagði fótboltaskóna á hilluna og byrjaði á Stöð 2 árið 2001. Vísir/Vilhelm
„Það verður afmælisboð í kvöld með nánustu fjölskyldu. Ekkert stórt. Það er hálf skrítin tilfinning að vera orðinn fimmtugur en maður verður bara að vera þakklátur fyrir að geta haldið upp á það,“ segir afmælisbarn dagsins, Hörður Magnússon íþróttafréttamaður.

Hann er Hafnfirðingur í húð og hár. Kveðst hafa prófað að búa í Reykjavík hátt í tíu ár en flutt aftur suður í Fjörð fyrir sex árum. „Ræturnar eru í Hafnarfirði og þær toguðu óneitanlega, enda er voða erfitt að sjá mig einhvers staðar annars staðar en í Firðinum,“ segir hann og hlær við.



Kannski er það nærveran við FH sem heillar. „Ég byrjaði að spila með FH sex ára og fylgdi því liði upp í meistaraflokk en var þó eitt ár í Val því mér fannst allt í lagi að prófa eitthvað annað. Lagði svo skóna á hilluna 2001 þegar ég var þrjátíu og fimm ára. Þá var ég byrjaður að vinna á Stöð 2, datt inn í það og fannst ágætt að ljúka einum ferli og hefja annan.

Það fer ekki vel saman við fótbolta að vinna vaktavinnu og svo er líka betra að vera ekki fastur í einhverju liði þegar maður vinnur í íþróttafréttum, þáttastjórn og lýsingum.“

Ekki kveðst Hörður vita til að hnattreisa sé í kortunum í tilefni tímamótanna, þó auðvitað væri gaman að prófa það.

„Sonur minn sem er tvítugur er hins vegar í hálfs árs heimsreisu með tveimur vinum sínum og var í Peking í gær. Hans verður sárt saknað hér í dag, en þetta er frábært hjá honum. Maður hefði verið alveg til í eitthvað svona þegar maður var tvítugur. Krakkar eru miklu framtakssamari í dag. Ég hef ferðast töluvert og á vonandi eftir að gera meira af því.“

Þegar spurt er um áhugamálin er það góð tónlist sem fyrst kemur upp í hugann hjá Herði. „Ég hlusta mikið á tónlist og fer á tónleika þegar ég get komið því við. Hlusta á Sigurrós, David Bowie og er mikill aðdáandi Genesis, bands sem ég kynntist sem unglingur og fór á tónleika með árið 2007, þegar það spilaði á Old Traffold í Manchester. Það var mikil upplifun og hápunkturinn á mínum tónleikaferðum.“

Ertu Manchester-maður? „Þarna er best að ég segi pass en allir íþróttafréttamenn halda náttúrlega með einhverju liði þó þeir séu ekki að flíka því. Það er okkar að gefa öllum jafna möguleika í miðlunum. Í því liggur kúnstin.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×