Hvassari eggin Þorbjörn Þórðarson skrifar 15. febrúar 2016 07:00 Það eru aðrar leiðir færar til að ná sátt um peningastefnuna en upptaka nýs gjaldmiðils. Krónan hefur tvo slæma en óhjákvæmilega fylgifiska. Annar er verðtryggingin og hinn háir vextir. Þrátt fyrir lengsta stöðugleikatímabil núverandi peningastefnu eru stýrivextir Seðlabankans 5,75%. Það eru ótrúlega háir vextir í samanburði við það sem þekkist meðal annarra þjóða. Fylgifiskarnir eru báðir afleiðing smæðar íslensku krónunnar sem getur af sér óstöðugleika. Evran er raunhæfasti valkostur Íslendinga í peningamálum utan krónu. Þetta er niðurstaða 620 bls. skýrslu Seðlabankans frá 2012 sem var virt að vettugi af pólitíkinni. Kannski kemur það ekki að sök því besti varamaður krónunnar hefur ekki reynst sérstaklega góður leikmaður. Og evran er ekki bara að sliga ríkin í suðurhluta Evrópu. Finnskt efnahagslíf hefur verið fast í stöðnun í rúmlega þrjú ár samfleytt sem varð til þess að fjármálaráðherra Finna kallaði evrulandið Finnland „nýjasta sjúkling Evrópu“. Finnar eru komnir í niðursveiflu þar sem hagvöxtur hefur dregist saman tvo ársfjórðunga í röð. Finnland var fyrirmyndarríki í evrusamstarfinu. Finnar hegðuðu sér í samræmi við reglurnar og fylgdu Maastricht-skilyrðunum framan af. Samt eru Finnar í vandræðum á sama tíma og jákvæð teikn eru á lofti í grannríkinu Svíþjóð. Svíar eru ekki í myntsamstarfinu. Þeir reka sjálfstæða peningastefnu með sænskri krónu, flotgengi og verðbólgumarkmiði. Ástæður vanda Finna eru meðal annars þær að laun hækkuðu þar umfram framleiðniaukningu. Lærdómurinn af reynslu Finna er hins vegar sá að traustur og stöðugur gjaldmiðill er ekki ávísun á góð lífskjör þótt menn fari eftir leikreglum í hagstjórn. Þessi vitneskja breytir samt engu um galla íslensku krónunnar. Ef núverandi ríkisstjórn og þær sem á eftir koma sýna ráðdeild í ríkisfjármálum og laun á vinnumarkaði hækka ekki umfram verðmætasköpun er hins vegar mögulegt að ná betra valdi á krónunni. Í augnablikinu er íslensk þjóð að ganga í gegnum lengsta verðstöðugleikatímabil frá því verðbólgumarkmið Seðlabankans var tekið upp árið 2001. Það er hins vegar ekki höftunum, ríkisstjórninni og Seðlabankanum að þakka heldur að miklu leyti vegna áhrifa af alþjóðlegu verðfalli hrávara, eins og olíu. Einn alvarlegasti bresturinn sem fylgir sjálfstæðri peningastefnu með krónu er innbyggður ójöfnuður sem felst í ólíkri stöðu launafólks, sem hefur tekjur í krónum, og atvinnurekenda sem hafa tekjur í gjaldeyri. Barátta fólks fyrir launum í mynt sem rýrnar ekki og er ekki undirorpin sveiflum og óvissu er eitt mikilvægasta baráttumál sem launafólk hefur staðið frammi fyrir frá afnámi vistarskyldunnar árið 1894. Í því felst lykillinn að efnahagslegu réttlæti í okkar samfélagi. Það er eitt brýnasta viðfangsefni stjórnmálanna að taka á þessu vandamáli og skapa sátt um peningastefnuna í leiðinni. Ein leið að þessu markmiði væri að þau fyrirtæki sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, eins og náttúru landsins og fiskinn í sjónum, greiddu eðlilegt og réttmætt endurgjald fyrir afnot af þessum auðlindum. Hér er ég að tala um ferðaþjónustuna og sjávarútveginn, þær atvinnugreinar sem skapa mestan gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Því háir vextir og verðtrygging er beiskur kaleikur örþjóðar sem þrjóskast við að viðhalda sjálfstæðri peningastefnu. Íslenska krónan er vissulega tvíeggja sverð en eins og stendur vísar hvassari eggin frá okkur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorbjörn Þórðarson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Það eru aðrar leiðir færar til að ná sátt um peningastefnuna en upptaka nýs gjaldmiðils. Krónan hefur tvo slæma en óhjákvæmilega fylgifiska. Annar er verðtryggingin og hinn háir vextir. Þrátt fyrir lengsta stöðugleikatímabil núverandi peningastefnu eru stýrivextir Seðlabankans 5,75%. Það eru ótrúlega háir vextir í samanburði við það sem þekkist meðal annarra þjóða. Fylgifiskarnir eru báðir afleiðing smæðar íslensku krónunnar sem getur af sér óstöðugleika. Evran er raunhæfasti valkostur Íslendinga í peningamálum utan krónu. Þetta er niðurstaða 620 bls. skýrslu Seðlabankans frá 2012 sem var virt að vettugi af pólitíkinni. Kannski kemur það ekki að sök því besti varamaður krónunnar hefur ekki reynst sérstaklega góður leikmaður. Og evran er ekki bara að sliga ríkin í suðurhluta Evrópu. Finnskt efnahagslíf hefur verið fast í stöðnun í rúmlega þrjú ár samfleytt sem varð til þess að fjármálaráðherra Finna kallaði evrulandið Finnland „nýjasta sjúkling Evrópu“. Finnar eru komnir í niðursveiflu þar sem hagvöxtur hefur dregist saman tvo ársfjórðunga í röð. Finnland var fyrirmyndarríki í evrusamstarfinu. Finnar hegðuðu sér í samræmi við reglurnar og fylgdu Maastricht-skilyrðunum framan af. Samt eru Finnar í vandræðum á sama tíma og jákvæð teikn eru á lofti í grannríkinu Svíþjóð. Svíar eru ekki í myntsamstarfinu. Þeir reka sjálfstæða peningastefnu með sænskri krónu, flotgengi og verðbólgumarkmiði. Ástæður vanda Finna eru meðal annars þær að laun hækkuðu þar umfram framleiðniaukningu. Lærdómurinn af reynslu Finna er hins vegar sá að traustur og stöðugur gjaldmiðill er ekki ávísun á góð lífskjör þótt menn fari eftir leikreglum í hagstjórn. Þessi vitneskja breytir samt engu um galla íslensku krónunnar. Ef núverandi ríkisstjórn og þær sem á eftir koma sýna ráðdeild í ríkisfjármálum og laun á vinnumarkaði hækka ekki umfram verðmætasköpun er hins vegar mögulegt að ná betra valdi á krónunni. Í augnablikinu er íslensk þjóð að ganga í gegnum lengsta verðstöðugleikatímabil frá því verðbólgumarkmið Seðlabankans var tekið upp árið 2001. Það er hins vegar ekki höftunum, ríkisstjórninni og Seðlabankanum að þakka heldur að miklu leyti vegna áhrifa af alþjóðlegu verðfalli hrávara, eins og olíu. Einn alvarlegasti bresturinn sem fylgir sjálfstæðri peningastefnu með krónu er innbyggður ójöfnuður sem felst í ólíkri stöðu launafólks, sem hefur tekjur í krónum, og atvinnurekenda sem hafa tekjur í gjaldeyri. Barátta fólks fyrir launum í mynt sem rýrnar ekki og er ekki undirorpin sveiflum og óvissu er eitt mikilvægasta baráttumál sem launafólk hefur staðið frammi fyrir frá afnámi vistarskyldunnar árið 1894. Í því felst lykillinn að efnahagslegu réttlæti í okkar samfélagi. Það er eitt brýnasta viðfangsefni stjórnmálanna að taka á þessu vandamáli og skapa sátt um peningastefnuna í leiðinni. Ein leið að þessu markmiði væri að þau fyrirtæki sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, eins og náttúru landsins og fiskinn í sjónum, greiddu eðlilegt og réttmætt endurgjald fyrir afnot af þessum auðlindum. Hér er ég að tala um ferðaþjónustuna og sjávarútveginn, þær atvinnugreinar sem skapa mestan gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Því háir vextir og verðtrygging er beiskur kaleikur örþjóðar sem þrjóskast við að viðhalda sjálfstæðri peningastefnu. Íslenska krónan er vissulega tvíeggja sverð en eins og stendur vísar hvassari eggin frá okkur.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun