Körfubolti

Finnur Freyr: Skrifað í skýin með Helga eftir skotin í fyrra

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Finnur Freyr Stefánsson tolleraður eftir sigurinn í dag.
Finnur Freyr Stefánsson tolleraður eftir sigurinn í dag. vísir/hanna
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, var í dag aðeins annar maðurinn frá 1991 sem kemur með bikarmeistaratitilinn í Vesturbæinn. KR vann Þór úr Þorlákshöfn, 95-79, og varð bikarmeistari í ellefta sinn.

Þetta er fyrsti bikarmeistaratitilinn Finns Freys sem þjálfari KR en hann gerði liðið að Íslandsmeistara undanfarin tvö tímabili.

"Ég er ansi glaður og ánægður. Sérstaklega fyrir hönd félaga míns, Helga Más. Þvílíkur leikur hjá honum," sagði Finnur Freyr um gamla manninn Helga Má sem var kjörinn besti leikmaðurinn í bikarúrslitunum.

Helgi Már klúðraði tveimur skotum á síðustu sekúndum úrslitaleiksins í fyrra á móti Stjörnunni þar sem KR tapaði fimmta úrslitaleiknum af sex síðan 1991.

"Þetta var skrifað í skýin með Helga. Eftir þessi tvö skot hans í fyrra þá var eiginlega engin spurning um að hann myndi klára þetta í dag. Hann er búinn að vera einstaklega óheppinn með meiðsli á sínu síðasta ári en er að komast í betra stand," sagði Finnur.

"Þegar hann er í lagi er hann einn allra besti leikmaður þessarar deildar."

Finnur sagði KR-ingana ekkert hafa pælt í martröðum fortíðar fyrir leikinn. Það voru aðrir í því.

"Það er alltaf verið að reyna að búa til umfjöllun í kringum okkur um einhverja fortíð til að eyðileggja fyrir okkur daginn með einhverju bulli. Við vorum ekkert að spá í þessu. Maður heyrði bara eitthvað um fortíðina í spjalli við fjölmiðlamenn eða aðra fyrir utan KR," sagði Finnur, en hvað þýðir það fyrir hann að koma með bikarinn heim í Vesturbæ?

"Ég elska að vinna og elska að vinna með mínu félagi. Við vorum sárir og svekktir í fyrra. Þetta var titill sem við ætluðum að vinna."

"Þetta var sérstaklega ánægjulegt fyrir Helga þar sem þetta var hans síðasti bikarúrslitaleikur. Ég ætla að vinna þennan bikar aftur og aftur og aftur en fyrir þessa eldri menn var virkilega gaman að klára þetta," sagði Finnur Freyr.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×