Körfubolti

Helgi Már: Hefði verið mannskemmandi að tapa í dag

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Helgi Már Magnússon fagnar í dag.
Helgi Már Magnússon fagnar í dag. vísir/hanna
Helgi Már Magnússon, leikmaður KR, var manna kátastur að loknum bikarúrslitaleik KR og Þórs í dag sem KR vann, 95-79. Helgi hefur á glæstum ferli aldrei unnið bikarinn og var því hungraður í dag.

Helgi spilaði líka þannig. Hann skoraði 26 stig og var kjörinn maður leiksins eftir sigurinn í sínum síðasta bikarúrslitaleik. Hann leggur skóna á hilluna í lok tímabils og flytur til Washington með konu sinni.

"Ég var mjög gíraður en svo fékk ég víti til að koma mér í gang og þá slaknaði aðeins á mér. Svo fékk ég bara fullt af tækifærum til að gera hluti því Þór lagði eðlilega mikla áherslu á Mike," sagði Helgi Már við Vísi eftir leik.

"Þeir reyndu líka að loka á Brynjar og þessa stráka en það er ekki hægt að dekka alla með svona pressu. Því opnaðist aðeins fyrir mig og ég lét bara vaða."

"Það er mikið búið að tala um hraðaupphlaupið mitt. Þvílík snerpa. Maður gerði þetta bara hægt og rólega. Ég hélt ég væri að fara að missa boltann en svo allt í einu var allt galopið þannig ég lagði boltann bara ofan í," sagði Helgi.

Helgi viðurkenndi fúslega að hann þráði sigur í dag þar sem hann var kominn í Höllina í líklega síðasta sinn á ferlinum.

"Það hefði verið mannskeppandi að tapa í dag og þá hefði ég verið rosalega lítill í mér. Allt í allt er þetta fimmti bikarúrslitaleikurinn minn.  Ég á þrjá sem leikmaður og einn sem ungur pungur í jakkafötum á bekknum," sagði Helgi Már.

"Ég hugsaði í dag að við verðum að vinna þetta og sem betur fer tókst það. Þórsararnir eru góðir og þessi Vance er  svakalega góður. Þetta tókst og við erum svakalega kátir með þetta," sagði Helgi, en ætlar hann með bikarinn til Washington?

"Það er ár í næsta bikarúrslitaleik þannig ég hlýt að fá að taka bikarinn með út. Maður verður að fá að sýna strákunum hann," sagði kampakátur Helgi Már Magnússon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×