Lífið

Bingó fyrir góðan málstað

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Alma Sigurðardóttir, Þórarinn Hjálmarsson, Marta Kristín Jónsdóttir og Harpa Þrastardóttir eru í hópnum sem stendur að bingóinu í dag. Fjölmargir vinningar eru í boði fyrir þá sem eru heppnir.
Alma Sigurðardóttir, Þórarinn Hjálmarsson, Marta Kristín Jónsdóttir og Harpa Þrastardóttir eru í hópnum sem stendur að bingóinu í dag. Fjölmargir vinningar eru í boði fyrir þá sem eru heppnir. Fréttablaðið/Ernir
Allir sem kunna tölurnar geta tekið þátt,“ segir Alma Sigurðardóttir, einn skipuleggjenda í góðgerðarbingói sem fram fer á Háskólatorgi í dag. Bingóið er haldið til styrktar sumarbúðunum í Reykjadal og allur ágóði rennur óskiptur til þeirra.

„Við sitjum öll námskeið við viðskiptafræðideildina sem heitir Samvinna og árangur. Þetta líkist þessum raunveruleikaþáttum um fjáröflun. Þetta gengur allt út á það að við vinnum saman sem hópur að fjáröflun og við völdum að styrkja Reykjadal. Við skiptum okkur niður í hópa og erum öll með mismunandi verkefni til þess að safna. Okkar hópur var að selja pítsur í gær á Háskólatorgi og við héldum annað bingó í vikunni fyrir háskólanema,“ segir Alma.

Mikil þörf er á að styrkja starfsemi Reykjadals. „Það er kominn tími á framkvæmdir þarna og það eru mjög langir biðlistar. Við vildum leggja okkar af mörkum,“ segir hún.

Hópurinn hefur safnað tugum vinninga frá fjölmörgum fyrirtækjum fyrir bingóið. „Við erum með gríðarlegan fjölda vinninga. Við höfðum samband við heilan helling af fyrirtæjum og það tóku allir mjög vel í þessa bón okkar. Við erum þakklát fyrir hvað allir tóku vel í þetta. Þetta er allt frá gjafabréfum fyrir ís upp í hótelgistingu. Það er líka hvalaskoðun, bækur, leikföng, alls konar upplifanir, skartgripir, snyrtivörur og fleira í vinninga.“

Bingóstjórinn er Lalli töframaður en bingóið hefst á Háskólatorgi klukkan 13 og stendur til 15.

„Það verður almenn gleði og skemmtilegheit, við hvetjum alla til að koma.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×