Íslenski boltinn

Þrjár landsliðskonur Mexíkó með Þór/KA í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Natalia Gomez Junco fagnar marki.
Natalia Gomez Junco fagnar marki. Vísir/Getty
Það verða mexíkósk áhrif innan liðs Þór/KA í Pepsi-deild kvenna í sumar en félagið hefur nú samið við þriðju landsliðskonu Mexíkó á stuttum tíma.

Nýjasti leikmaður Þór/KA er hin 24 ára gamla Natalia Gómez Junco sem er miðjumaður. Hún hefur spilað með LSU-háskólanum í Bandaríkjunum undanfarin ár.

Gómez Junco er í landsliði Mexíkó eins og þær Cecilia Santiago og Stephany Mayor sem höfðu áður samið við Akureyrarfélagið.  

„Við teljum okkur vera að fá sterkan karakter með reynslu úr landsliðum Mexíkó. Fjölhæfur, skapandi miðjumaður sem hefur gott auga fyrir spili og færum. Góður karakter sem ég efast ekki um að eigi eftir að lyfta okkar stelpum uppá enn hærra plan og bæta liðið til muna. Ég bind miklar vonir við hana, eins og hinar auðvitað“ sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari Þórs/KA um Nataliu Gómez Junco í samtali við heimasíðu Þórsara.

Cecilia Santiago er 21 árs markvörður en Stephany Mayor er 25 ára sóknarmaður. Þær hafa báðar spilað með Mexíkó í tveimur lokakeppnum HM, HM í Þýskalandi 2011 og HM í Kanada 2015.

Stephany Mayor hefur skorað 10 mörk í 55 landsleikjum og Cecilia Santiago varð á sínum tíma yngsti markvörðurinn sem spilar á HM kvenna í fótbolta.

Cecilia Santiago var aðeins 16 ára og 251 dags gömul þegar hún spilaði á HM í Þýskalandi 2011 og hefur spilað alls sex leiki á HM kvenna 2011 og 2015.

Það má sjá myndband með Natalii Gómez Junco hér fyrir neðan.

Natalia Gomez Junco, Sofia Huerta og Nayeli Rangel.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×