Lífið

Fyrirhyggjusöm sunddrottning

Guðrún Ansnes skrifar
Krisín Þorsteinsdóttir leggur mikið á sig til að ná þeim árangri sem raun ber vitni. Móðir hennar, Sigríður Hreinsdóttir, segir því miður ekki tekið nógu vel eftir fötluðum einstaklingum sem gera það gott í sportinu.
Krisín Þorsteinsdóttir leggur mikið á sig til að ná þeim árangri sem raun ber vitni. Móðir hennar, Sigríður Hreinsdóttir, segir því miður ekki tekið nógu vel eftir fötluðum einstaklingum sem gera það gott í sportinu. Vísir/Ernir
Kristín Þorsteinsdóttir er ísfirsk sundkona á heimsmælikvarða, sem hefur klifið metorðastigann hratt í íþróttinni. Kristín er með Downs-heilkenni og er best í sínum flokki, S16, í gjörvallri Evrópu, en það fékk hún staðfest á Evrópumóti fólks með Downs sem fram fór á Ítalíu í nóvember á síðasta ári. Hún sneri aftur heim til Ísafjarðar, þar sem hún býr ásamt fjölskyldu sinni, með tvenn gullverðlaun, eitt silfur og eitt brons. Eins og það hafi ekki verið nóg, þá setti hún tvö heimsmet og alls átta sinnum bætti hún Evrópumet í sex greinum.

Hún hefur þrisvar sinnum verið valin íþróttamaður Ísafjarðarbæjar, auk þess að vera valin Vestfirðingur ársins 2015 og varð önnur í kjöri Vísis á manni ársins 2015.

Um liðna helgi lagði Kristín svo land undir fót og keppti á alþjóðlegu sundmóti fatlaðra í Malmö í Svíþjóð, og setti þar nýtt heimsmet í 25 metra skriðsundi, auk þess að bæta eigið Evrópumet í 50 metra skriðsundi og 25 metra baksundi.

Keppir alltaf upp fyrir sig

„Það var mjög fínt, það var gaman að hafa svona flokk fyrir mína fötlun. Það var gaman að keppa með öðrum frá Íslandi, en ekki alltaf bara ég ein að keppa,“ segir Kristín aðspurð um mót liðinnar helgar, en tíðindum þykir sæta að keppt sé í svonefndum S16 flokki, þar sem íþróttamenn með Downs-heilkennið etja kappi, en allajafna keppa þeir einstaklingar í flokki S14. Til glöggvunar má benda á að það er sami flokkur og Jón Margeir Sverrisson Ólympíufari keppir í, og segir Sigríður Hreinsdóttir, móðir Kristínar, ansi langan veg milli fötlunar Jóns og Kristínar.

„Það er verið að mótmæla þessu, og þetta er megin­ástæða þess hvers vegna sundíþróttamenn með Downs eru ekki að fara á Ólympíuleikana. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig staðan er á þessu, en veit að baráttunefnd fyrir Downs er alltaf að störfum. Í grunninn er Kristín alltaf að keppa upp fyrir sig,“ útskýrir hún.

Kristín ásamt móður hennar Sigríði.mynd/aðsend
Kristín á gott bakland, en fjölskyldan leggur sig alla fram við að styðja við bakið á henni í sundinu, sem og á öðrum vígstöðvum. Það á reyndar við um töluvert fleiri í nærsamfélagi Kristínar, en velunnarar hennar, undir handleiðslu móðurbróður Kristínar, Jóns Páls Hreinssonar, tóku sig saman fyrir Evrópumótið á Ítalíu og stofnuðu sérstakt stuðningsteymi.

„Þá fór boltinn svolítið að rúlla þar sem þessu fylgir rosalegur kostnaður og vinna. Þetta félag sér eiginlega alveg um þann vinkil að fjármagna. Foreldrar eiga ekki að vera í þeirri stöðu að þurfa að safna styrkjum. Ég var búin að reyna þetta, en þetta er ofboðsleg vinna, alls konar pappírar og mikið umstang. Þegar við höfum svona einstakling í höndunum, sem þá þegar hafði verið kosinn íþróttamaður Ísafjarðar, og á leiðinni á EM, varð að gera eitthvað meira.“

Afrek fatlaðra vanmetin 

Kristín hefur mikið fyrir þeim árangri sem hún hefur náð og það sést vel á afrekunum. „Hún æfir þrisvar í viku, en þarf samt að hafa heilmikið fyrir því að mæta á þessar æfingar, standa sig vel á þeim, fara í þrek og passa upp á mataræðið. Þó hún sé ekki að synda á við heilbrigðan einstakling, þá er hún að synda á sínum forsendum og sé miðað við hennar fötlun, er hún að standa sig algjörlega frábærlega,“ segir Sigríður þegar málefni fatlaðra í fjölmiðlum ber á góma. „Ég veit að í íþróttaheiminum hefur verið sagt að ekki liggi eins mikið að baki og hjá ófötluðum, og var Kristín Rós sundkona til að mynda ekki valin íþróttamaður ársins einhvern tíma af þessum ástæðum.“

Telurðu að ef um ófatlaðan einstakling hefði verið að ræða, að heimsmet Kristínar hefðu vakið meiri athygli fjölmiðla? „Já, án efa. Auk þess sem viðkomandi hefði alltaf haft miklu fleiri í kringum sig til að sinna slíku. Við erum að halda utan um alla boltana kannski tvö eða þrjú. Þessi mismunun verður alltaf, við verðum líklega bara að fara að viðurkenna það. Eða hvað? Nei, maður ætti ekki að þurfa að gera það.“





Kristín var ekki há í loftinu þegar hún var þegar tekin að synda. Hér er hún sex ára gömul á sundnámskeiði.mynd/aðsend
Hefðum átt að flytja suður 

Eins og áður segir er Kristín Ísfirðingur í húð og hár, borin þar og barnfædd. Hún unir sér vel á Ísafirði, en stendur þó frammi fyrir þeirri staðreynd að laugin sem hún æfir sig í er töluvert minni en keppinautar hennar annars staðar hafa aðgang að og það setur ákveðið strik í reikninginn, þótt hún standi sig jafn vel og raun ber vitni.

„Það er erfitt að byggja upp sund­íþróttina þegar sundfólk getur aðeins tekið þátt í stuttum greinum. Þetta hamlar Kristínu vissulega. Þarna er á ferðinni manneskja sem hefur verið að slá heimsmet, svo það væri auðvitað gaman að geta reynt fyrir sér í fleiri greinum. Auk þess sem hér æfir hún ein til keppni,“ bendir Sigríður á. Kristín tekur undir orð móður sinnar og bætir við: „Sko, við hefðum átt að flytja til Reykjavíkur,“ glettin á svip, en hún hefur margsinnis lýst yfir að hana langi ekki að flytja í stressið sem fylgir höfuðborginni, enda líkar henni vel við rólegheitin sem hún hefur átt að venjast fyrir vestan.

Sigríður viðurkennir að vissulega hafi komið upp hugmyndin um að flytjast með Kristínu suður til að geta stutt enn betur við bak sundkonunnar, en svo hafi verið ákveðið að gera það ekki og reyna frekar að gera það besta úr aðstæðum á Ísafirði. 

„Það er mikið meira en að segja það að ætla að flytja suður. Hér er vel haldið utan um hana, vinnan hennar er æðisleg, og hér er hún frjáls ferða sinna. Hingað til hefur aðeins verið rætt að fara til Reykjavíkur í aðdraganda stórmóta og æfa, en vitum svo ekkert hvort eitthvað verður af því.“



Sundelsk systkin þau Bragi, Kristín og Marta. Þau hafa verið öflug í að aðstoða systur sína á sundferlinum, nú síðast tók Bragi að sér hlutverk þjálfara Kristínar í Malmö ásamt kærustu sinni, Snjólaugu.mynd/aðsend
Flýgur brátt úr hreiðrinu

Kristín starfar á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, þar sem henni líður afskaplega vel. Þá hefur hún nýlega fest kaup á sinni fyrstu íbúð og hyggst flytjast úr foreldrahúsum hvað úr hverju. Hefur hún lagt fyrir frá því hún var sextán ára og fékk sínar fyrstu örorkubætur.

„Það eru bara ellefu dagar í að ég flytji,“ segir Kristín og ljómar öll, en á meðan þær mæðgur skelltu sér á mótið í Malmö var pabbi hennar heima að standsetja íbúðina svo spenningurinn fyrir breyttum tímum er mikill. Hún hefur ekki stórar áhyggjur af foreldrum sínum sem skilin eru eftir tvö, þau geti bara komið í heimsókn. 

„Ég ræð engu. Þetta er það sem hún hefur stefnt á og nú er komið að því. Ég hefði helst viljað bíða í tvö til þrjú ár, en maður verður að hlusta á fullorðinn einstakling.“ Kristín lítur á mömmu sína og skýtur að: „Takk fyrir að aðstoða mig mamma og hjálpa mér svona mikið.“ Þær skella báðar upp úr, og Sigríður bendir á að hún sé ansi dugleg við að hrósa, og við höfum sagt frá því áður en þegar hún setti fyrsta heimsmetið sitt, að þá knúsuðumst við svolítið og svo segir hún: „Takk fyrir að eignast mig.“ Það var góð viðurkenning fyrir mömmu. Þær verða ekki betri.“

Ósátt við kerfið

„Kristín er mjög sátt við sjálfa sig og sitt líf. Hún sýnir okkur óspart hve ánægð hún er með sína stöðu,“ bendir Sigríður á, og talar þar í samhengi við umræðu sem skók netheima ekki alls fyrir löngu, þar sem tekist var á um fóstureyðingar í kjölfar upplýsinga um fóstur með Downs-heilkennið. Sigríður segir umræðuna erfiða.

„Maður fer einhvern veginn allan skalann varðandi þetta. Aðallega verð ég þó að viðurkenna að ég verð svolítið pirruð, svolítið móðguð og reið. En þó ekki beint við fólkið sem tekur ákvarðanirnar, heldur kerfið. Hver er ástæðan fyrir að eingöngu er ráðist á þessa fötlun í skimun? Við vitum að þetta er ekki það erfiðasta sem þjóðfélagið þarf að höndla. Auðvitað er það svo að fólk með þessa fötlun er mismunandi, rétt eins og við hin og því afar misjafnt hvernig það plumar sig í lífinu,“ útskýrir hún alvarleg og heldur svo áfram: „Ég viðurkenni það alveg, að sem óreynd og óþroskuð á þessu sviði, þá veit ég ekkert hvernig ég hefði brugðist við ef okkur, foreldrum hennar, hefði verið boðið í slíka skimun á sínum tíma. Ég skildi ekki umræðuna sem átti sér stað á netinu um daginn, og því síður myndbirtinguna. Ég náði þessu ekki, og ég er mikið að vanda mig við að vera varkár, þar sem ég vil ekki vera dómhörð. Sjálf fór ég frá þessari umræðu, ég hafði hvorki löngun né geð í mér til að fylgjast með. Þannig getur maður orðið reiður og maður græðir ekkert á því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×