Körfubolti

Stefan Bonneau spilar með b-liði Njarðvíkur í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefan Bonneau.
Stefan Bonneau. Vísir/Stefán
Stefan Bonneau snýr aftur á körfuboltavöllinn í kvöld þegar hann mun spila með b-liði Njarðvíkur í 2. deildinni.

Það bíða margir Njarðvíkingar eftir því að sjá þennan frábæra leikmann aftur í Njarðvíkurbúningnum og hann mun taka fyrsta skrefið inn á völlinn á eftir.

Njarðvík mætir Íþróttafélagi Breiðholts klukkan 20.30 í kvöld í Ljónagryfjunni í Njarðvík.

Njarðvíkingar staðfestu það á fésbókarsíðu sinni í kvöld að Stefan Bonneau muni spila leikinn en hann mun þó ekki spila nema nokkrar mínútur enda ætla Njarðvíkingar að fara varlega af stað.

Það verða fleiri stjörnuleikmenn á ferðinni í kvöld. Bræðurnir Teitur og Gunnar Örlygsson ætla hugsanlega að spila líka en það er enn verið að leita að búningi sem passar á þjálfarann.  Páll Kristinsson og Sverrir Þór Sverrisson gætu líka spilað og því verður Njarðvíkurliðið fullt af kunnum köppum.

Stefan Bonneau hefur ekki spilað með Njarðvíkurliðinu á þessu tímabili eftir að hafa slitið hásin í haust. Hann talaði alltaf um það sjálfur að hann ætlaði að ná úrslitakeppninni og hann hefur verið í kringum Njarðvíkuliðið í allan vetur.

Njarðvíkingar eiga eftir þrjá leiki í Domino´s deildinni fyrir úrslitakeppnina og sá fyrsti er á heimavelli á móti Þór í Þorlákshöfn í beinni á Stöð 2 Sport á föstudagskvöldið. Stefan Bonneau mun ekki spila leikinn á föstudagskvöldið samkvæmt heimildum Vísis en gæti komið inn í meistaraflokksliðið um miðjan mars.

Stefan Bonneau hyggst spila sinn fyrsta leik à árinu med B lidi UMFN i kvöld. Leikurinn hefst kl 20.30 og er um ad raeda...

Posted by Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur on 1. mars 2016



Fleiri fréttir

Sjá meira


×