Körfubolti

Kunna Haukarnir betur á Vance Hall en önnur lið?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vance Hall.
Vance Hall. Vísir/Ernir
Haukar og Þór Þorlákshöfn spila í kvöld fyrsta leik sinn í átta liða úrslitum Domino´s deildar karla í körfubolta og er fyrsti leikurinn á heimavelli Hauka á Ásvöllum.

Haukar hafa unnið átta síðustu leiki sína í Domino´s deildinni eða alla leiki síðan í lok janúar. Þar á meðal er sannfærandi 24 stiga sigur á Þór 26. febrúar. Haukarnir unnu annars báða leiki sína við Þór í vetur og það með samtals 42 stigum. Þórsliðið skoraði aðeins 66,0 stig að meðaltali í þessum tveimur leikjum.

Lykilatriðið að þessum tveimur góðum sigurleikjum Haukaliðsins var án efa hversu vel þeim gekk að stoppa bandaríska bakvörðinn Vance Hall í liði Þórs.

Vance Hall skoraði aðeins 15,5 stig að meðaltali í deildarleikjunum á móti Haukum í vetur eða minna en á móti nokkru öðru liði í deildinni. Hann hitti sem dæmi aðeins úr 3 af 15 þriggja stiga skotum sínum í leikjunum tveimur.

Þórsarar töpuðu þeim 70 mínútum sem Hall spilaði á móti Haukum með samtals 40 stigum en Hall var aðeins í mínus á móti tveimur öðrum liðum í deildinni eða KR (-16) og Keflavík (-10).

Plús og mínus hjá Vance Hall á móti liðum Domino´s-deildarinnar:

FSu +42

ÍR +40

Tindastóll +32

Höttur +30

Njarðvík +23

Snæfell +22

Grindavík +1

Stjarnan +1

Keflavík -10

KR -16

Haukar -40

Stig í leik hjá Vance Hall á móti liðum Domino´s-deildarinnar:

Snæfell 32,0

FSu 30,5

Tindastóll 29,0

Stjarnan 27,0

Grindavík 27,0

Keflavík 22,5

ÍR 21,5

KR 21,5

Njarðvík 19,0

Höttur 17,0

Haukar 15,5

Framlag í leik hjá Vance Hall á móti liðum Domino´s-deildarinnar:

Tindastóll 35,0

FSu 32,0

Snæfell 31,5

Stjarnan 26,0

Höttur 22,4

Grindavík 21,5

Keflavík 19,0

ÍR 19,0

Njarðvík 18,5

KR 15,0

Haukar 14,5

Það segir líka sína sögu að Vance Hall skoraði 27 stig og gaf 6 stoðsendingar þegar Þórsliðið sló Hauka út í átta liða úrslitum Poweadebikarsins í janúar og hann var með 28 stig þegar Þórsliðið vann eins stiga sigur á Haukum í undanúrslitaleik Lengjubikarsins í októberbyrjun.

Vance Hall hefur þannig skorað 27,5 stig að meðaltali í sigurleikjum Þórs á móti Haukum í vetur en aðeins 15,5 stig að meðtali í tapleikjunum. Hann er ennfremur með framlag upp á 28 í leik í sigrunum tveimur en aðeins 14,5 í tapleikjunum tveimur.

Leikur Haukar og Þórs hefst klukkan 19.15 í Schenkerhöllinni á Ásvöllum og honum verður gerð góð skil í Körfuboltakvöldinu sem hefst strax á lokinni beinni útsendingu frá leik Stjörnunnar og Njarðvíkur.


Tengdar fréttir

Getur einhver stöðvað KR?

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, segir þrjár af fjórum viðureignum í átta-liða úrslitum Domino’s-deildarinnar vera afar áhugaverðar. Fréttablaðið fékk Inga til að rýna í átta-liða úrslitin sem hefjast í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×