Viðskipti innlent

RBS segir upp þúsund starfsmönnum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Þrjú hundruð störf flytjast til Indlands þar sem launakostnaður er mun lægri en í Bretlandi.
Þrjú hundruð störf flytjast til Indlands þar sem launakostnaður er mun lægri en í Bretlandi. Vísir/AFP
Royal Bank of Scotland mun á næstu misserum segja upp þúsund starfsmönnum samkvæmt heimildum Financial Times. Bankinn mun vélvæða 550 störf og flytja þrjú hundruð störf til Indlands til að draga úr launakostnaði.

Í gær var greint frá því að 448 starfsmönnum á fjárfestingasviði yrði sagt upp vegna endurskipulagningar. Bankinn mun segja upp skrifstofustarfsmönnum og millistjórnendum á fyrirtækja- og stofnanasviði til þess að minnka deildina.

Breska ríkið á 73 prósenta hlut í bankanum eftir efnahagshrunið árið 2008, og hefur George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, ítrekað vilja breska ríkisins til að losa um eign sína í bankanum á hærra verði en núverandi gengi hlutabréfa.

Í staðinn fyrir þessi 448 störf mun RBS skapa þrjú hundruð svipuð stöðugildi á Indlandi, þar sem bankinn er nú þegar með starfsemi, til að draga úr launakostnaði. Bankinn mun svo fækka þeim störfum á komandi árum.

Fyrir nokkrum dögum tilkynnti bankinn að fjárfestingaráðgjafasvið yrði minnkað og 550 ráðgjöfum sagt upp. Í staðinn munu tækninýjungar verða nýttar til þess að veita viðskiptavinum með minni viðskipti við bankann ráðgjöf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×