Sport

Ótrúleg saga skautadrottningar á leið á hvíta tjaldið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Ástralska leikkonan Margot Robbie mun fara með hlutverk skautadrottningarinnar Tonyu Harding í væntanlegri kvikmynd sem ber nafnið I, Tonya.

Harding ólst upp við erfiðar aðstæður í Portland í Bandaríkjunum. Hún hætti snemma í skóla en naut hins vegar mikillar velgengni á skautasvellinu. Hún varð m.a. Bandaríkjameistari 1991 en það ár framkvæmdi hún þrefaldan Axel, eitt af erfiðari stökkum í listdansi á skautum.

Árið 1994 reis frægðarsól hennar hæst, þó ekki fyrir afrek á skautasvellinu. Í janúar það ár var ráðist á hennar helsta keppinaut, Nancy Kerrigan, á meðan á stórmóti í Detroit stóð. Árásarmaðurinn, Shane Stant, sló Kerrigan í fótinn með barefli og með þeim afleiðingum að hún þurfi að draga sig úr keppni.

Kerrigan og Harding saman á æfingu.vísir/getty
Harding fór með sigur af hólmi á mótinu en seinna kom það í ljós að eiginmaður hennar, Jeff Gillooy, og lífvörður, Shawn Eckhardt, höfðu skipulagt árásina á Kerrigan. Hún bar þó ekki tilætlaðan árangur því Kerrigan náði sér í tíma fyrir Vetrarólympíuleikana í Lillehammer í febrúar 1994. Þar vann Kerrigan til silfurverðlauna á meðan Harding mátti gera sér 8. sætið að góðu.

Þetta mál vakti mikla athygli á sínum tíma en Harding var fundin sek um yfirhylmingu. Í kjölfarið var hún svipt bandaríska meistaratitlinum sem hún vann 1994 og sett í lífstíðarbann af bandaríska listskautasambandinu.

Nú er þessi ótrúlega saga á leið á hvíta tjaldið en Robbie mun fara með hlutverk Harding eins og áður sagði. Robbie er á hraðri uppleið í Hollywood en hún er hvað þekktust fyrir leik sinn í The Wolf of Wall Street.

Robbie er einnig framleiðandi I, Tonya auk þess sem það er á hennar könnu að finna leikstjóra fyrir myndina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×