10 ár sem breyttu Íslandi Lars Christensen skrifar 23. mars 2016 10:00 Á mánudaginn voru tíu ár síðan skýrslan „Geyser crisis“ var gefin út. Eins og margir vita var ég meðhöfundur skýrslunnar sem hagfræðingur hjá Danske Bank. Það er óhætt að segja að skýrslan hafi breytt lífi mínu. Ég gerði mér fulla grein fyrir því að skýrslan hefði áhrif, en ég verð að segja að ég gat ekki ímyndað mér að áhrifin yrðu eins og raunin varð og ég bjóst sannarlega ekki við að ég myndi skrifa um skýrsluna tíu árum seinna. Ísland hefur hins vegar á margan hátt orðið hlutskipti mitt. Ég hef ekki alltaf notið þess og þótt ég hafi aldrei verið hræddur við að segja hug minn þá hafa deilurnar ekki alltaf verið skemmtilegar. Að því sögðu hefði ég ekki viljað vera án þess því það hefur gefið mér annað – náin tengsl við Ísland og íslensku þjóðina, og það er nokkuð sem ég met mikils og það gleður mig alltaf þegar einhver kallar mig Íslandsvin. Í einkalífinu hefur margt gerst á þessu tíu ára tímabili – mikilvægast er að ég kvæntist og eignaðist tvö stórkostleg börn, svo þetta hafa verið tíu frábær ár fyrir mig, en á þessum tíu árum fór Ísland í gegnum gríðarlega bankakreppu og mjög djúpa efnahagslægð. En Ísland hefur náð sér mjög vel eftir kreppuna og á meðan ættland mitt, Danmörk, hefur í dag minni verga landsframleiðslu en árið 2007, og hefur í raun ekki haft neinn hagvöxt síðustu 7-8 árin, hefur Ísland að fullu náð sér eftir hrunið, að minnsta kosti hvað verga landsframleiðslu áhrærir, og vöxtur í íslenska hagkerfinu er líflegur. Fáir hefðu spáð því 2008, en síðan 2010 hefur Ísland í raun haft einn mesta hagvöxt í Evrópu og ég spáði því vissulega ekki. Batinn í íslensku efnahagslífi hefur sannarlega verið ótrúlegur. Mörg mistök voru gerð á Íslandi, en aðstæðurnar neyddu stjórnvöld til að taka margar réttar ákvarðanir og það hefur hjálpað íslenska hagkerfinu að ná sér. Ég held sérstaklega að sú „þvingaða“ ákvörðun að leyfa alþjóðlega hluta íslensku bankanna að falla og hin skarpa rýrnun íslensku krónunnar hafi verið meginþættirnir á bak við efnahagsbatann. Auk þess sýnir efnahagsbatinn á Íslandi að strangt aðhald í ríkisfjármálum drepur ekki endilega hagkerfið ef neikvæð áhrif á heildareftirspurn eru „bætt upp“ með slökun á peningamálastefnu (veikari gjaldmiðill og lægri vextir). Þegar kreppan skall á í október 2008 var ég oft spurður hvernig mér þætti að hafa haft „rétt fyrir mér“ um Ísland (ég hafði ekki eins „rétt fyrir mér“ og fólk heldur stundum). Það virðist kannski þverstæðukennt, eftir þá stundum persónulegu gagnrýni sem ég varð fyrir 2006, að þá gerði íslenska kreppan mig sannarlega niðurdreginn og sérstaklega hafði hinn mikli kostnaður sem margir venjulegir Íslendingar urðu fyrir mikil áhrif á mig, en það var líka sá þáttur sem fékk mig til að samsama mig mun betur við Ísland. Þegar allt er talið held ég að sagan sem byrjaði sem martröð hafi endað vel og það gleður mig mjög að íslenska hagkerfið hafi náð sér svo vel á strik, og þótt það séu enn nokkur kerfislæg viðfangsefni sem íslenskt efnahagslíf þarf að takast á við er ég bjartsýnn á að það haldi áfram að batna næsta áratuginn og ég hlakka til að fylgjast með þróuninni eins nákvæmlega og ég hef gert síðustu tíu ár. Ísland – ég verð áfram vinur þinn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Lars Christensen Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun
Á mánudaginn voru tíu ár síðan skýrslan „Geyser crisis“ var gefin út. Eins og margir vita var ég meðhöfundur skýrslunnar sem hagfræðingur hjá Danske Bank. Það er óhætt að segja að skýrslan hafi breytt lífi mínu. Ég gerði mér fulla grein fyrir því að skýrslan hefði áhrif, en ég verð að segja að ég gat ekki ímyndað mér að áhrifin yrðu eins og raunin varð og ég bjóst sannarlega ekki við að ég myndi skrifa um skýrsluna tíu árum seinna. Ísland hefur hins vegar á margan hátt orðið hlutskipti mitt. Ég hef ekki alltaf notið þess og þótt ég hafi aldrei verið hræddur við að segja hug minn þá hafa deilurnar ekki alltaf verið skemmtilegar. Að því sögðu hefði ég ekki viljað vera án þess því það hefur gefið mér annað – náin tengsl við Ísland og íslensku þjóðina, og það er nokkuð sem ég met mikils og það gleður mig alltaf þegar einhver kallar mig Íslandsvin. Í einkalífinu hefur margt gerst á þessu tíu ára tímabili – mikilvægast er að ég kvæntist og eignaðist tvö stórkostleg börn, svo þetta hafa verið tíu frábær ár fyrir mig, en á þessum tíu árum fór Ísland í gegnum gríðarlega bankakreppu og mjög djúpa efnahagslægð. En Ísland hefur náð sér mjög vel eftir kreppuna og á meðan ættland mitt, Danmörk, hefur í dag minni verga landsframleiðslu en árið 2007, og hefur í raun ekki haft neinn hagvöxt síðustu 7-8 árin, hefur Ísland að fullu náð sér eftir hrunið, að minnsta kosti hvað verga landsframleiðslu áhrærir, og vöxtur í íslenska hagkerfinu er líflegur. Fáir hefðu spáð því 2008, en síðan 2010 hefur Ísland í raun haft einn mesta hagvöxt í Evrópu og ég spáði því vissulega ekki. Batinn í íslensku efnahagslífi hefur sannarlega verið ótrúlegur. Mörg mistök voru gerð á Íslandi, en aðstæðurnar neyddu stjórnvöld til að taka margar réttar ákvarðanir og það hefur hjálpað íslenska hagkerfinu að ná sér. Ég held sérstaklega að sú „þvingaða“ ákvörðun að leyfa alþjóðlega hluta íslensku bankanna að falla og hin skarpa rýrnun íslensku krónunnar hafi verið meginþættirnir á bak við efnahagsbatann. Auk þess sýnir efnahagsbatinn á Íslandi að strangt aðhald í ríkisfjármálum drepur ekki endilega hagkerfið ef neikvæð áhrif á heildareftirspurn eru „bætt upp“ með slökun á peningamálastefnu (veikari gjaldmiðill og lægri vextir). Þegar kreppan skall á í október 2008 var ég oft spurður hvernig mér þætti að hafa haft „rétt fyrir mér“ um Ísland (ég hafði ekki eins „rétt fyrir mér“ og fólk heldur stundum). Það virðist kannski þverstæðukennt, eftir þá stundum persónulegu gagnrýni sem ég varð fyrir 2006, að þá gerði íslenska kreppan mig sannarlega niðurdreginn og sérstaklega hafði hinn mikli kostnaður sem margir venjulegir Íslendingar urðu fyrir mikil áhrif á mig, en það var líka sá þáttur sem fékk mig til að samsama mig mun betur við Ísland. Þegar allt er talið held ég að sagan sem byrjaði sem martröð hafi endað vel og það gleður mig mjög að íslenska hagkerfið hafi náð sér svo vel á strik, og þótt það séu enn nokkur kerfislæg viðfangsefni sem íslenskt efnahagslíf þarf að takast á við er ég bjartsýnn á að það haldi áfram að batna næsta áratuginn og ég hlakka til að fylgjast með þróuninni eins nákvæmlega og ég hef gert síðustu tíu ár. Ísland – ég verð áfram vinur þinn.