Körfubolti

Haukur Helgi er „Stórskota Stebbi“ Íslands í dag | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson skoraði sigurkörfu Njarðvíkinga í gær í öðrum undanúrslitaleik Njarðvíkur og Íslands- og bikarmeistara KR.

Haukur Helgi gerði út um leikinn með einstaklingskörfu þremur sekúndur fyrir leikslok en hann skoraði alls 27 stig í leiknum.

Þetta var langt frá því að vera fyrsta slíka karfa kappans í þessu einvígi á móti KR því hann skoraði tvær slíkar í tvíframlengda leiknum í Frostaskjólinu og þá var hann fyrr í leiknum í gær búinn að skora flautukörfu af mjög löngu færi.

Frammistaða Hauks Helga síðustu daga tryggir honum örugglega viðurnefnið „Stórskota Stebbi“ Íslands í dag.

KR-ingar náðu reyndar að stoppa Hauk Helga í lok fyrsta leiksins. Helgi Már Magnússon stoppaði þá knattrak Hauka með fætinum en dómarar leiksins dæmdu ekki á það.  Það var kannski eins gott fyrir KR-liðið að Haukur náði ekki skotinu því þessu stóru skot hafa ekki klikkað hjá honum í síðustu leikjum.

Haukur Helgi Pálsson hefur skorað 26,5 stig og tekið 11,5 fráköst að meðaltali í fyrstu tveimur undanúrslitaleikjunum á móti KR en hann hefur meðal annars skorað átta þriggja stiga körfur í þessum tveimur leikjum.

Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá Hauk Helga setja niður öll þessi stóru skot í fyrstu tveimur leikjum einvígis Njarðvíkur og KR.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×