Óskabörn Eimskipafélagsins Guðmundur Andri Thorsson skrifar 18. apríl 2016 00:00 Einu sinni var Eimskipafélag Íslands óskabarn þjóðarinnar og gegndi ómetanlegu hlutverki í samgöngum og sjálfsmynd lítillar þjóðar sem nú átti sinn eigin fána að sigla undir. Enn er fyrirtækið starfrækt og fæst við skipaflutninga undir skrautlegum fánum, og er með nýja kennitölu, enda fór gamla félagið – óskabarnið – á hausinn árið 2009 eftir mikil viðskiptatilþrif. Og upp reis uppvakningur afskriftanna, eins og svo algengir hafa verið í því afturgönguhagkerfi sem hér hefur ríkt frá hruni, með ásjónu og yfirbragð gamalla og gróinna fyrirtækja, fjármagnaðir af almannasjóðum og í áskrift að útgjöldum almennings, en gróðann hirða aflendingarnir.Þeir sem vilja vild … Við höfum í seinni tíð einna helst orðið vör við félagið vegna árlegrar umkvörtunar þeirra sem starfa við að útbreiða hróður þess yfir því að fá ekki að dreifa hjólahjálmum með merki félagsins meðal barna í skólum borgarinnar. Í gær mátti einmitt lesa hina árvissu harmatölu upplýsingafulltrúa félagsins á dv.is innan um stórtíðindi dagsins á borð við þau að Brynjar Níelsson væri andvígur vinstri mönnum. (Að sögn stórhrifins og agndofa blaðamanns mun Brynjar hvorki meira né minna en hafa „hraunað yfir vinstri menn“ einhvers staðar; og hlýtur það að hafa verið ófögur sjón. Þessi iðja – að hrauna yfir annað fólk – getur hins vegar verið hættuspil, því að sá sem fer um sem hraunelfur hlýtur á endanum þau örlög að storkna; dagar uppi; verður að nátttrölli.) Upplýsingafulltrúinn hjá Eimskip er að sínu leyti fulltrúi gamalla hugmynda, þeirra sem ríktu fyrir hrun, með heimsfrægum afleiðingum, þegar allar ákvarðanir voru teknar inni í stórfyrirtækjum út frá sjónarmiðum auðmanna og með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Hann er sem sagt alltaf að reyna að knýja fram breytingar á stefnu Reykjavíkurborgar varðandi aðgengi fyrirtækja með auglýsingar sínar að skólabörnum borgarinnar. Honum finnst óþolandi og óskiljanlegt að fyrirtækið ráði því bara ekki sjálft hvernig það nálgast börnin. Það sé „forræðishyggja“ sem var dónalegasta orð tungunnar fyrir hrun. Hann telur það frekar í verkahring stjórnenda Eimskipafélagsins að móta slíka stefnu en til dæmis kjörinna fulltrúa almennings sem fara með stjórn borgarinnar. Hann vill leyfa fyrirtækjum að koma varningi merktum sér inn á börnin – annað sé „forræðishyggja“. Samkvæmt þessari hugsjón gætu leikskólabörn til dæmis verið með buff merkt bjórframleiðendum – „léttöl“ vínk vínk – eða vill borgin standa í vegi fyrir því að börnin fái buff til hlífðar hárinu gegn lús og öðrum ófögnuði? Samfestingar í Bónuslitum og með bleika grísnum? Kuldagallar merktir Rio Tinto Alcan? Húfur með merki Hvals hf? Leikföngin í boði Brotafls og Kraftbindinga? Möguleikarnir eru takmarkalausir, þegar loks létti „forræðishyggjunni“ og hleypt inn á blessuð börnin, öllum þeim fyrirtækjum sem væru í leit að jákvæðu viðhorfi í sinn garð – vildu vild og væru til í að borga vel fyrir þá vild. Kannski er þetta leiðin til að rétta af halla borgarsjóðs? Mætti jafnvel hugsa sér að hinir mörgu og athyglisþurfi forsetaframbjóðendur fengju að kaupa andlit sitt aftan á bakið á úlpum barnanna? Og við sæjum börnin kjagandi í halarófu á eftir fóstrunum með andlitið á Ástþóri eða Sturlu aftan á bakinu …Gangandi auglýsing? Í frétt DV segir upplýsingafulltrúi Eimskipafélagsins: „Það er vægast sagt hallærislegt þegar Sigrún Björnsdóttir, upplýsingafulltrúi skóla- og frístundasviðs hjá Reykjavíkurborg, heldur því fram að börn með hjálma sem gefnir eru af Kiwanis og Eimskip séu gangandi auglýsing“. Þetta má reyndar til sanns vegar færa hjá upplýsingafulltrúanum, því að öllu nær væri að tala um að börnin séu hjólandi auglýsing en gangandi. Með umfjöllun fulltrúans fylgir mynd af barni með téðan hjálm, og er af einhverjum ástæðum látinn snúa þannig að merkið sést ekki, svo að fólk gæti jafnvel haldið að Eimskipafélagið sé af einskærri umhyggju sinni fyrir börnum þessa lands að dreifa ómerktum hlífðarhjálmum til barna. Svo er ekki. Og á meðan merki Eimskipafélagsins er á hjálmi hjólandi barns – þá er barnið hjólandi auglýsing fyrir félagið. Meira að segja afbragðs góð auglýsing. Betri auglýsingu má eiginlega varla hugsa sér. Með þessum hjálmum er Eimskipafélagið komið með merkið sitt, ásjónu sína og nærveru inn á hvert heimili landsins, og hangir á snaga frammi á gangi eins og hver annar þátttakandi í lífi fjölskyldunnar, komið í hjarta tilveru ótal landsmanna, inn í daglegt umhverfi nánustu fjölskyldunnar, og tengist þar tilfinningum, djúpum tilfinningum, sjálfri umhyggjunni sem við berum fyrir börnum okkar, og þörf okkar fyrir að finna að þau njóti fyllsta öryggis. Slíkt aðgengi að fjölskyldunni er draumur allra auglýsingamanna. Og skýrir hvers vegna skólakrakkar í Reykjavík eru óskabörn Eimskipafélagsins, sem einu sinni var óskabarn þjóðarinnar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Vegna greinar Snorra Mássonar Guðmundur Andri Thorsson Skoðun Halldór 11.01.2025 Rafn Ágúst Ragnarsson Halldór Hugvíkkandi meðferðir eru fortíð okkar, nútíð og framtíð Sara María Júlíudóttir Skoðun Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun Hefjum aðildarviðræður við Bandaríkin Einar Jóhannes Guðnason Skoðun Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun Árið 1975 er að banka Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Af hverju eru kennarar að fara í verkfall? Anton Már Gylfason Skoðun Upprætum óttann við óttann Sóley Dröfn Davíðsdóttir Skoðun
Einu sinni var Eimskipafélag Íslands óskabarn þjóðarinnar og gegndi ómetanlegu hlutverki í samgöngum og sjálfsmynd lítillar þjóðar sem nú átti sinn eigin fána að sigla undir. Enn er fyrirtækið starfrækt og fæst við skipaflutninga undir skrautlegum fánum, og er með nýja kennitölu, enda fór gamla félagið – óskabarnið – á hausinn árið 2009 eftir mikil viðskiptatilþrif. Og upp reis uppvakningur afskriftanna, eins og svo algengir hafa verið í því afturgönguhagkerfi sem hér hefur ríkt frá hruni, með ásjónu og yfirbragð gamalla og gróinna fyrirtækja, fjármagnaðir af almannasjóðum og í áskrift að útgjöldum almennings, en gróðann hirða aflendingarnir.Þeir sem vilja vild … Við höfum í seinni tíð einna helst orðið vör við félagið vegna árlegrar umkvörtunar þeirra sem starfa við að útbreiða hróður þess yfir því að fá ekki að dreifa hjólahjálmum með merki félagsins meðal barna í skólum borgarinnar. Í gær mátti einmitt lesa hina árvissu harmatölu upplýsingafulltrúa félagsins á dv.is innan um stórtíðindi dagsins á borð við þau að Brynjar Níelsson væri andvígur vinstri mönnum. (Að sögn stórhrifins og agndofa blaðamanns mun Brynjar hvorki meira né minna en hafa „hraunað yfir vinstri menn“ einhvers staðar; og hlýtur það að hafa verið ófögur sjón. Þessi iðja – að hrauna yfir annað fólk – getur hins vegar verið hættuspil, því að sá sem fer um sem hraunelfur hlýtur á endanum þau örlög að storkna; dagar uppi; verður að nátttrölli.) Upplýsingafulltrúinn hjá Eimskip er að sínu leyti fulltrúi gamalla hugmynda, þeirra sem ríktu fyrir hrun, með heimsfrægum afleiðingum, þegar allar ákvarðanir voru teknar inni í stórfyrirtækjum út frá sjónarmiðum auðmanna og með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Hann er sem sagt alltaf að reyna að knýja fram breytingar á stefnu Reykjavíkurborgar varðandi aðgengi fyrirtækja með auglýsingar sínar að skólabörnum borgarinnar. Honum finnst óþolandi og óskiljanlegt að fyrirtækið ráði því bara ekki sjálft hvernig það nálgast börnin. Það sé „forræðishyggja“ sem var dónalegasta orð tungunnar fyrir hrun. Hann telur það frekar í verkahring stjórnenda Eimskipafélagsins að móta slíka stefnu en til dæmis kjörinna fulltrúa almennings sem fara með stjórn borgarinnar. Hann vill leyfa fyrirtækjum að koma varningi merktum sér inn á börnin – annað sé „forræðishyggja“. Samkvæmt þessari hugsjón gætu leikskólabörn til dæmis verið með buff merkt bjórframleiðendum – „léttöl“ vínk vínk – eða vill borgin standa í vegi fyrir því að börnin fái buff til hlífðar hárinu gegn lús og öðrum ófögnuði? Samfestingar í Bónuslitum og með bleika grísnum? Kuldagallar merktir Rio Tinto Alcan? Húfur með merki Hvals hf? Leikföngin í boði Brotafls og Kraftbindinga? Möguleikarnir eru takmarkalausir, þegar loks létti „forræðishyggjunni“ og hleypt inn á blessuð börnin, öllum þeim fyrirtækjum sem væru í leit að jákvæðu viðhorfi í sinn garð – vildu vild og væru til í að borga vel fyrir þá vild. Kannski er þetta leiðin til að rétta af halla borgarsjóðs? Mætti jafnvel hugsa sér að hinir mörgu og athyglisþurfi forsetaframbjóðendur fengju að kaupa andlit sitt aftan á bakið á úlpum barnanna? Og við sæjum börnin kjagandi í halarófu á eftir fóstrunum með andlitið á Ástþóri eða Sturlu aftan á bakinu …Gangandi auglýsing? Í frétt DV segir upplýsingafulltrúi Eimskipafélagsins: „Það er vægast sagt hallærislegt þegar Sigrún Björnsdóttir, upplýsingafulltrúi skóla- og frístundasviðs hjá Reykjavíkurborg, heldur því fram að börn með hjálma sem gefnir eru af Kiwanis og Eimskip séu gangandi auglýsing“. Þetta má reyndar til sanns vegar færa hjá upplýsingafulltrúanum, því að öllu nær væri að tala um að börnin séu hjólandi auglýsing en gangandi. Með umfjöllun fulltrúans fylgir mynd af barni með téðan hjálm, og er af einhverjum ástæðum látinn snúa þannig að merkið sést ekki, svo að fólk gæti jafnvel haldið að Eimskipafélagið sé af einskærri umhyggju sinni fyrir börnum þessa lands að dreifa ómerktum hlífðarhjálmum til barna. Svo er ekki. Og á meðan merki Eimskipafélagsins er á hjálmi hjólandi barns – þá er barnið hjólandi auglýsing fyrir félagið. Meira að segja afbragðs góð auglýsing. Betri auglýsingu má eiginlega varla hugsa sér. Með þessum hjálmum er Eimskipafélagið komið með merkið sitt, ásjónu sína og nærveru inn á hvert heimili landsins, og hangir á snaga frammi á gangi eins og hver annar þátttakandi í lífi fjölskyldunnar, komið í hjarta tilveru ótal landsmanna, inn í daglegt umhverfi nánustu fjölskyldunnar, og tengist þar tilfinningum, djúpum tilfinningum, sjálfri umhyggjunni sem við berum fyrir börnum okkar, og þörf okkar fyrir að finna að þau njóti fyllsta öryggis. Slíkt aðgengi að fjölskyldunni er draumur allra auglýsingamanna. Og skýrir hvers vegna skólakrakkar í Reykjavík eru óskabörn Eimskipafélagsins, sem einu sinni var óskabarn þjóðarinnar.
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun