Körfubolti

Njarðvíkingar eru þegar búnir að skrifa nýja sögu í úrslitakeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson hjá Njarðvík fagnar hér sigri í oddaleik í Garðabæ.
Haukur Helgi Pálsson hjá Njarðvík fagnar hér sigri í oddaleik í Garðabæ. Vísir/Anton
Njarðvíkingar eru komnir í oddaleik um sæti í lokaúrslitum þrátt fyrir að hafa komið inn í úrslitakeppni Domino´s deildar karla með sjöunda besta árangurinn.

Njarðvíkingar eru þegar búnir að skrifa nýju sögu í úrslitakeppninni en liðið er það fyrsta til að vinna fimm leiki í úrslitakeppni af þeim sem hafa endað í 7. sæti eða neðar í deildarkeppninni.

Njarðvíkingar töpuðu fjórum síðustu leikjum sínum í deildarkeppninni og komu því með langa taphrinu á bakinu inn í úrslitakeppnina. Þeir slógu Stjörnumenn út í oddaleik og hafa síðan unnið Íslandsmeistara KR tvisvar sinnum.

Af þessum fimm sögulegu sigurleikjum komu þrír þeirra á útivelli en Njarðvíkingar unnu Stjörnumenn þrisvar sinnum í Ásgarði í Garðabæ í átta liða úrslitunum.

Njarðvíkingar bættu met ÍR-ingar frá 2008 og Stjörnumanna frá 2014 þegar þeir unnu sinn fimmta leik í úrslitakeppninni í ár og jöfnuðu þar með einvígið í 2-2.

ÍR-liðið frá 2008 sló Íslandsmeistara KR 2-1 í átta liða úrslitunum og komst síðan í 2-0 á móti verðandi Íslandsmeisturum Keflavíkur. Keflvíkingar unnu síðustu þrjá leiki einvígsins og síðan alla þrjá leikina á móti Snæfelli í lokaúrslitum.

Stjörnumenn slógu Keflavík 3-0 út úr átta liða úrslitunum fyrir tveimur árum og töpuðu síðan 3-1 á móti verðandi Íslandsmeisturum KR í undanúrslitunum.

Flestir sigrar í einni úrslitakeppni hjá liði sem kemur úr sjöunda sæti og neðar:

5 - Njarðvík 2016 (7. sæti)

4 - ÍR 2008 (7. sæti)

4 - Stjarnan 2014 (7.sæti)

3 - ÍA 1998 (8. sæti)

3 - KR 2013 (7. sæti)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×