Körfubolti

Óvíst hvort að Pavel geti verið með í oddaleiknum á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij.
Pavel Ermolinskij. Vísir/Anton
Pavel Ermolinskij, leikstjórnandi KR-liðsins, missir mögulega af oddaleik KR og Njarðvíkur í undanúrslitum Domino´s deildar karla á morgun.

Íslandsmeistarar KR eru komnir í oddaleik á móti Njarðvík annað árið í röð en það kemur eflaust ekki í ljós fyrr en stuttu fyrir leik hvernig lið KR-inga verður skipað í leiknum á morgun.

KR-ingar segja nefnilega frá því á heimasíðu sinni í dag að óvíst sé með þátttöku Pavels í leiknum mikilvæga á morgun.

Pavel var hvergi sjáanlegur þegar fjórði leikur Njarðvíkur og KR hófst í Njarðvík í gær en fljótlega kom hann þó inn í salinn með umbúðir á kálfa.

Pavel varð fyrir því óláni að fá tak í upphitun en það var síðan sameiginleg ákvörðun Pavels, Finns Freys þjálfara og Bjartmars sjúkraþjálfara að hvíla hann í leiknum.

Björn Kristjánsson kom inn í byrjunarliðið fyrir Pavel en þessi óvænta breyting rétt fyrir leik stuðaði greinilega KR-inga sem lentu 14-0 og 18-3 undir í byrjun leiks.

KR vann sig samt inn í leikinn og komst mest 9 stigum yfir en Njarðvíkingar sýndu mikinn karakter í lokin og tryggðu sér sigur og þar með oddaleik annað kvöld.

„Pavel verður í sjúkraþjálfun í dag og á morgun sem vonandi gerir hann leikfæran annað kvöld en það er enn óvíst. Þegar á móti blæs stíga aðrir upp og það þurfa hreinlega allir að eiga sinn besta leik til að tryggja KR sæti í úrslitum gegn Haukum," segir í fréttinni um Pavel á heimasíðu KR.

Pavel Ermolinskij er með 8,0 stig, 11,7 fráköst og 8,5 stoðsendingar að meðaltali í leik í úrslitakeppninni en KR-liðið hefur unnið þær 213 mínútur sem hann hefur spilað með 82 stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×