Lífið

Rapp í Reykjavík: Björk þverneitaði að vera á mynd með Emmsjé Gauta

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Gauti Þeyr Másson eða Emmsjé Gauti er ekki þekktur fyrir að „missa kúlið“ ef svo má segja en hann er einn vinsælasti rappari landsins. Þó komst hann ansi nærri því í eitt skiptið þegar hann bað Björk Guðmundsdóttur um að stilla sér upp á mynd með sér en fékk grjótharða neitun í andlitið.

„Einu sinni var ég að halda upp á afmælið mitt á Prikinu,“ sagði Emmsjé Gauti en sagan kom fram í viðtali hans og Halldórs Halldórssonar, Dóra DNA, fyrir þættina Rapp í Reykjavík sem sýndir verða á Stöð 2 á sunnudagskvöldum nú í vor. Brotið má sjá hér að ofan. Gauti segir frá veislunni í þættinum, hann hafði leigt Prikið og var með staðinn til miðnættis. Um miðbik afmælisins sér hann hvar Björk kemur inn í partýið og byrjar að dansa.

„Djöfull er þetta nett. Hún er fokking Björk, skilurðu? Hún labbar inn og er að dansa,“ útskýrir Gauti. Hann segist ekki vera vanur að bögga þekkt fólk en sannfærir sig um að þetta sé sérstakt tilvik, hann eigi afmæli, sé prúðbúinn og svalur í jakkafötum og eigi skilið eina mynd með Björk. Hann nálgast söngkonuna varfærnislega og biður afsakandi um mynd af sér með henni.

„Hún horfir bara svona á mig, hún hefði alveg eins getað hrækt á mig og segir: Sérðu ekki að ég er að dansa og tjilla?“

Emmsjé Gauti verður einn þriggja viðfangsefna þáttastjórnandans Dóra DNA í þættinum Rapp í Reykjavík annað kvöld. Þátturinn verður sá fyrsti af sex.


Tengdar fréttir

Rappið tekur yfir

Auðvelt er að færa rök fyrir því að íslenskt rapp sé á blómaskeiði. Hér er farið stuttlega yfir söguna og stöðuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×