Lífið

Ís-ís-ískalt eða ekki?

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Öllum er illa við matarsóun, eða ætti í það minnsta að vera það miðað við hvað við hendum miklu af mat en ef marka má niðurstöður forrannsóknar, sem Landvernd gerði á matarsóun heimila í borginni fyrir styrk frá Reykjavíkurborg á síðasta ári, þá er matvælum fyrir 4,5 milljarða króna hent árlega á reykvískum heimilum.

Rannsóknin benti til þess að að minnsta kosti 5.800 tonnum af matvælum væri hent á reykvískum heimilum árlega.

Til þess að í það minnsta að reyna að minnka matarsóun getum við gert ýmislegt og hefur geymsla matvæla til dæmis töluverð áhrif á líftíma þeirra. Það getur hins vegar stundum verið dálítið flókið að vita hvernig best er að geyma hinar ýmsu tegundir af grænmeti og ávöxtum svo endingin sé sem best.

Inn í það spilar til dæmis etýlen, meinlaus gastegund sem ávextir og grænmeti gefa frá sér í mismiklu magni. Þrátt fyrir að vera meinlaust getur það flýtt fyrir þroskun og þar með stytt líftíma ákveðinna tegunda. Sem dæmi má nefna að epli gefa frá sér mikið magn af gastegundinni og ágætt er að hafa það í huga þegar þeim er stillt upp í ávaxtakörfuna.

Hér má því sjá einfalda skýringarmynd en með henni er hægt að glöggva sig á því hvaða ávextir og grænmeti geymast best hvar. Kannski er eitthvað sem kemur ykkur á óvart – eins og til dæmis það að gúrkur geymast best við stofuhita og kjörið er að skella kryddjurtum í blómavasa og geyma þannig í ísskápnum.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×