Lífið

Aðeins 300 miðar eftir í The Color Run

Tinni Sveinsson skrifar
Hlaupið fer fram í Reykjavík á laugardag og hefst klukkan 9.
Hlaupið fer fram í Reykjavík á laugardag og hefst klukkan 9.
Það stefnir í að uppselt verði í The Color Run by Alvogen litahlaupið sem fram fer í Hljómskálagarðinum um komandi helgi. Aðeins 300 miðar eru nú eftir af þeim 1.000 miðum sem bætt var við hlaupið á dögunum og því nokkuð ljóst að uppselt verður í hlaupið annað árið í röð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum hlaupsins.

„Það er mjög ánægjulegt að áhugi á þátttöku er svona mikill og það gleður okkur aðstandendur mjög en á sama tíma þá sjáum við fram á að það verði einhverjir sem ekki ná að tryggja sér miða í hlaupið og það er leiðinlega hliðin á þessu. Í fyrra varð uppselt í hlaupið 2-3 dögum fyrir hlaup. Núna eru rúmlega 2 dagar til stefnu og þrátt fyrir að við höfum bætt við miðum þá duga þeir sjálfsagt ekki til,” segir Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri The Color Run á Íslandi.

Á dögunum var bætt við litapúðri og öðrum aðföngum til að geta tekið á móti fleiri hlaupurum. “Við fáum þessa viðbót frá Danmörku. Okkur stóð ekki til boða að fá meira með svona skömmum fyrirvara, því miður. Við vildum geta bætt meira við en það var bara ekki kostur í stöðunni.

Hlauparar sæki hlaupagögn sín í The Color Run búðina í Smáralind

Á mánudag opnaði The Color Run búðin í Smáralindinni og óhætt er að segja að þátttakendur ætla að vera litskrúðugir í hlaupinu næsta laugardag. Eftir aðeins tvo opnunardaga eru ákveðnar vörur strax farnar að seljast upp í búðinni.

„Það er rétt að bleiku tútú pilsin eru til dæmis því miður búin en við eigum fullt af öðrum litum líka sem eru ekkert síðri. Svo er ýmislegt annað sem er búið eða að klárast. Íslendingar eru tjúllaðir í The Color Run dót, sem er auðvitað bara skemmtilegt, það gerir hlaupið enn skemmtilegri upplifun,” segir Davíð.

Mikil áhersla er lögð á að þátttakendur sæki hlaupagögn sín í verslunina sem finna má á annarri hæð í Smáralind, við innganginn næst Debenhams. Búðin opnar daglega kl. 11 og er opin til 19 á miðvikudag, 22 á fimmtudag og á föstudag verður Þorláksmessustemning með opnun til 23. Auk hlaupagagna má versla ýmiskonar The Color Run varning í búðinni til að gera upplifun af hlaupinu enn ánægjulegri, auk þess sem hægt er að versla Under Armour hlaupaskó og annan fatnað á allt að 50% afslætti í búðinni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×