Lífið

Stundum í sjálfboðavinnu í Sæheimum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Hrafn Steinar að dorga á bryggjunni í heimabæ sínum, Hafnarfirði, þar sem hann setti fyrst öngul í vatn þegar hann var fjögurra ára.
Hrafn Steinar að dorga á bryggjunni í heimabæ sínum, Hafnarfirði, þar sem hann setti fyrst öngul í vatn þegar hann var fjögurra ára. Vísir/Hanna
Ég fer oft niður á bryggju á sumrin því þá er ég mikið í Vestmannaeyjum og þar er mjög vinsælt að dorga. En fyrst dorgaði ég á bryggjunni í Hafnarfirði þar sem ég á heima þegar ég var fjögurra ára. Mamma og pabbi kenndu mér það.

Hvaða beitu notarðu? Mér finnst best að beita kola.

Færðu oft fisk á öngulinn? Já, helst marhnút og kola.

Ferðu með þá heim í soðið? Nei, aldrei. Stundum sleppi ég þeim og stundum set ég þá í fiskakarið á vigtartorginu í Eyjum. Ég hef líka gefið fiska í Sæheima, fiskasafnið í Eyjum. Það er æðislegt safn sem ég mæli með að allir skoði, ég er stundum að vinna þar í sjálfboðavinnu.

Áttu kött? Já, hann heitir Glói og elskar harðfisk.

Hefurðu farið á sjó? Já, ég fer oft í Herjólf því við erum mikið í Eyjum,  mamma á búð í þar sem heitir Útgerðin. Svo hef ég farið oft út á sjó í Veiðileysu á Ströndum, þar á fjölskyldan eyðibýli.

Eru sjómenn í ættinni þinni? Já, afi Steini, sem hét Steindór Arason, var lengi skipstjóri og átti báta alveg þangað til hann dó.

Langar þig að verða sjómaður? Nei, ég held ekki, það er of hættuleg vinna.

Hvað ætlar þú að gera skemmtilegt í sumar? Ég ætla að fara á N1 mótið á Akureyri, æfa fótbolta, svo ætla ég á siglinganámskeið hjá Þyt í Hafnarfirði, ég ætla auðvitað að veiða og svo förum við fjölskyldan örugglega í einhver ferðalög.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. júní 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×