Lífið

Mest gaman að mála úti

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Jón Ingi segir vatnslitina tekna allt öðrum tökum en olíulitina, því sé tilbreyting að fást við hvorutveggja.
Jón Ingi segir vatnslitina tekna allt öðrum tökum en olíulitina, því sé tilbreyting að fást við hvorutveggja. Mynd/Edda Björg Jónsdóttir
„Ég er mest með vatnsliti en þó eru fleiri olíuverk á þessari sýningu en mörgum þeim fyrri og ég hef breytt efnistökum á ýmsan hátt,“ segir Jón Ingi Sigurmundsson, fyrrverandi kennari og kórstjóri sem opnar sýningu í samkomuhúsinu Stað á Eyrarbakka í dag klukkan 14. 

Jón býr á Selfossi en er landvanur á Bakkanum. „Ég er fæddur hér á Eyrarbakka og uppalin og myndefnið hér sækir á mig þó auðvitað fari ég út fyrir það líka. Hér í Stað er ágætur salur og ég fæ að hafa hann þrjár helgar. Opna í dag og svo er sjómannadagurinn á morgun og mikið um að vera.“

Jón Ingi hefur hlotið menningarverðlaun Árborgar og verið heiðraður af tímaritinu International Artist Magazine. Hann hefur haldið fjölda sýninga enda byrjaði hann ungur að mála.

„Jóhann Briem kenndi mér í upphafi og svo fór ég í nám bæði í Danmörku og Englandi. Kynntist vatnslitatækninni hjá mjög góðum vatnslitamálara í Englandi, Ron Ranson, stíllinn gerbreyttist hjá mér við það.“

Jón Ingi segir sjaldan viðra til að mála úti. „En á góðum degi finnst mér það lang mest gaman, þá fær maður mesta tilfinningu fyrir því sem maður er að fást við en birtan er síbreytileg.“



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. júní 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×