Viðskipti innlent

Brim kaupir Ögurvík

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ögurvík hf. á og gerir frystitogarann Vigra RE-71 út frá Reykjavík.
Ögurvík hf. á og gerir frystitogarann Vigra RE-71 út frá Reykjavík. Mynd/Vilhelm
Eigendur Ögurvíkur hf. og Brim hf. hafa gert samkomulag um að Brim hf. kaupi allt hlutafé í Ögurvík hf. Ögurvík hf. á og gerir frystitogarann Vigra RE-71 út frá Reykjavík.

Á Vigra RE-71 eru tvær áhafnir, sem skipta með sér veiðiferðum, alls 54 manns. Aflaheimildir skipsins á þessu fiskveiðiári eru um 10.000 tonn upp úr sjó. Brim hf. hyggst gera Vigra RE-71 áfram út frá Reykjavík.

Brim hf. á og gerir út þrjá frystitogara frá Reykjavík, Guðmund í Nesi RE-13, Brimnes RE-27 og Kleifaberg RE-70. Aflaheimildir skipanna nema um 24.000 tonnum upp úr sjó. Hjá fyrirtækinu vinna um 150 manns til sjós og lands.

Þá hefur Ögurvík hf., rekið söluskrifstofu fyrir sjávarafurðir og vélsmiðju sem m.a. framleiðir toghlera.

„Það er okkur eigendum Ögurvíkur hf. mikið fagnaðarefni að nú þegar við hyggjumst róa á önnur mið þá skuli öflug útgerð í Reykjavík taka við Vigra,“ er haft eftir Hirti Gíslasyni, framkvæmdastjóra Ögurvíkur hf. í tilkynningu.

„Kaupin á Ögurvík hf. falla mjög vel að rekstri Brims. Brim gerir út þrjá frystitogara frá Reykjavík og með kaupunum á Vigra styrkist rekstur félagsins,“ segir Guðmundur Kristjánsson forstjóri og aðaleigandi Brims hf. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×