Lífið

Eini karlinn í gæsapartíum

Elín Albertsdóttir skrifar
Heiðar Jónsson.
Heiðar Jónsson. Vísir/Stefán
Heiðar Jónsson snyrtir hefur oft vakið athygli fyrir skemmtilegar og skondnar umræður um hlutverk kynjanna, útlit og heilsu. Hann heldur vinsæl framkomunámskeið og er eini herrann sem fær að vera með í gæsapartíum.

Heiðar er ekkert á þeim buxunum að hætta með námskeiðin þótt hann verði 68 ára í sumar.

„Ég er orðinn ellilífeyrisþegi og get gert allt sem mig langar til. Ég er samt ekkert hættur að vinna,“ segir hann léttur í bragði.

„Ég er til dæmis að gæsa verðandi brúðir um helgar. Það gengur út á að ég les ítarlega í skrift gæsarinnar með gamansömu ívafi en jafnframt huglægu. Síðan les ég allar vinkonurnar lauslega frá sjónarmiði gæsarinnar. Það er mikil kátína í þessari uppákomu. Ég kenni gæsinni líka að daðra við aðra menn en þann sem hún er að fara að eignast. Það má ekki tína niður daðrinu þótt gengið sé í það heilaga,“ segir Heiðar og bætir við að enginn megi þó taka þessu þannig að hann sé að skora á konur til framhjáhalds.

„Þetta er frekar að konan sækist eftir hrósi, sönnun þess að hún líti vel út,“ segir hann. „Fólk setur orðið daður allt of mikið í samband við eitthvað kynferðislegt sem þarf alls ekki að vera.“

Heiðar er stoltur afi. Hér er hann með sonarsyni sínum sem hann hitti óvænt þegar myndin var tekin í Hafnarfirði. Stráksi, Sæmundur Heiðar, fagnaði afa.Vísir/Stefán
Sokkar og nærbuxur

Heiðar hefur verið með námskeið í áratugi þar sem hann kennir fas og framkomu og hvernig maður eigi að bera sig við hin ýmsu tækifæri.

Sömuleiðis hefur hann verið með kvennakvöld þar sem hann fræðir konur um undirfatnað sem hafa verið mjög vinsæl. Heiðar segir að flestallar íslenskar konur séu í vitlausri stærð af brjóstahöldum.

„Ég fæ eina konu upp og sýni með því að toga í hlýrana að hún sé ekki í réttri stærð,“ útskýrir hann.

Þegar Heiðar er spurður hvort konur verði ekki feimnar, svarar hann því neitandi. „Mér hefur einhvern veginn tekist að ná allri feimninni úr konum á þessum kvöldum. Ég hef að minnsta kosti aldrei verið laminn,“ segir hann hlæjandi. „Allt er þetta til gamans gert.“

Þegar hann er spurður hvort hann hafi skoðun á nærbuxum líka, svarar hann því játandi. „Þær eru auðvitað ofmetnar. Það er óþarfi að vera með klofbót bæði í nærbuxum og sokkabuxum.“

Heiðar er ófeiminn að ræða hreinlætismál og ýmis önnur persónuleg málefni á námskeiðum sínum og konur hlusta á hann með aðdáun. Heiðar vakti til dæmis mikla athygli fyrir tæpum þrjátíu árum þegar hann sagði í viðtali að karlmenn ættu alltaf að fara fyrst úr sokkunum í návist konunnar.

„Karlmaður á nærbuxum og sokkaleistunum er óskemmtilegur í útliti, svo vægt sé til orða tekið,“ sagði Heiðar á þeim tíma. Þessi setning heyrist oft enn í

dag. Heiðar hefur haldið ófá námskeið bæði fyrir karla og konur. Hann hefur leiðbeint þingmönnum, sjónvarpsfólki, bankamönnum og flugfreyjum, svo eitthvað sé nefnt en sjálfur starfaði hann sem flugþjónn í tíu ár. Meðal annars kennir hann fólki hvernig á að bera sig að í atvinnuviðtali. Hann var meðal þeirra fyrstu hér á landi sem litgreindu fólk sem var mjög vinsælt fyrir nokkrum árum.

Ritskoðar sig

„Það er svolítið skrýtið að ýmislegt sem ég gat sagt fyrir 20-30 árum þarf ég að passa mig á núna. Þar kemur femínisminn sterkur inn. Fyrir 30 árum leyfðist manni að segja hluti við konur sem manni væri hent út fyrir í dag. Umræðan í þjóðfélaginu hefur breyst mikið. Ég þarf að ritskoða sjálfan mig í dag og þarf að passa mjög mikið upp á að segja ekkert sem getur útlagst sem einhvers konar lítillækkun fyrir konur. Þá verður allt brjálað.“

Heiðar hefur jafnframt verið með námskeið í hugrænum fræðum með skyggnilýsingu á léttum nótum. „Ég hef líka verið með hópa fyrir Símenntun, fólk sem á við einhvers konar þroskahömlum að stríða. Það hefur verið sérlega skemmtilegt,“ segir hann.

Fyrirsætan Heiðar og Guðmunda Hulda Jóhannesdóttir ballettdansari sitja fyrir í lopauglýsingu.
Engir heimsborgarar

Þegar Heiðar er spurður hvernig honum lítist á þingmenn í dag, svarar hann:

„Ég er kominn á þann aldur að vilja halda í hefðir í klæðaburði. Á mínum uppeldisárum fór karlmaður ekki úr jakka í viðurvist eldri kvenna. Karlmenn sem vilja fá virðingu eiga að bera hálstau og vera vel klæddir. Við erum kannski komin of langt í frjálsræði á Alþingi. Umræða um gallabuxur hefur verið nokkur. Sumir telja að gallabuxur séu buxur með tvöföldum saum. Ég hallast að því að gallabuxur séu úr denim-efni. Fínar flauelsbuxur og blaser-jakki getur verið virðulegur klæðnaður. Annars eru Íslendingar almennt vel klæddir en stundum svolítið kauðalegir. Kannski vegna þess að það er svo stutt síðan við komum úr torfbæjunum. Það vantar á okkur heimsborgarstílinn.“

Heiðar bjó á Norður-Ítalíu í eitt ár og segir að mikill munur sé á því hvernig Ítalir beri sig miðað við okkur. „Þeir geta klæðst dýrum og fínum fötum en klæðast samt ekkert endilega vel. Hins vegar eru þeir agaðir í framkomu og hegðun sem kemur þeim vel,“ segir hann.

Talið berst að hegðun Íslendinga í kommentakerfum. „Ég er alltaf jafn undrandi þegar ég les sum ummæli á netinu. Ég hefði talið að Íslendingar væru hófsamt fólk en því miður er ekki svo. Það er sorglegt að sjá margt af því sem sagt er á netinu og það hjá vel menntaðri og frambærilegri þjóð. Maður er stundum feginn að það eru ekki margir utan­lands sem skilja íslensku. Ég hef gaman af Face­book en fólk ætti aldrei að setja eitthvað á samfélagsmiðil sem það gæti ekki sagt við manneskju augliti til auglitis,“ segir Heiðar.

Hann hefur líka skoðun á forsetaframbjóðendum. „Mér líst vel á frambjóðendurna og vil benda þeim á að framkoma og klæðnaður mun skipta miklu máli þegar sjónvarpsumræður hefjast af fullri ­alvöru. Aðalatriðið er þó að fólk komi til dyranna eins og það er klætt.“

Fjölskyldumaður og einfari

Heiðar er stoltur afi tveggja barna. Hann á sautján ára dótturdóttur sem býr í Bandaríkjunum og fjögurra ára sonarson hér á landi sem hann hittir oft.

„Stór hluti fjölskyldu minnar er fluttur vestur á Hellissand og þangað fer ég aðra hverja helgi. Ég er mikill fjölskyldumaður og nýt þess að vera með barnabörnunum. Svo fer ég oft á eyðibýli á Snæfellsnesi sem tilheyrir fjölskyldu minni. Við höfum verið að laga þar til. Annars er ég einfari. Finnst gott að fara á fáfarna staði og ganga þar um til að hlaða batteríin. Mér finnst sömuleiðis fínt að fara einn til útlanda og ganga þar um götur þar sem enginn þekkir mann. Annars er komin ný kynslóð í þessu landi sem hefur ekki hugmynd um hver ég er. Því hef ég fundið vel fyrir í gæsapartí­unum.“

Heiðar var oft fyrirsæta fyrir íslenskan lopa á yngri árum.
Heiðar segist ekki kvíða því að eldast. „Aldur er bara einhver tala,“ segir hann.

„Sem betur fer hef ég alltaf verið heilsuhraustur og hugsa vel um heilsuna. Ég er veikur fyrir sykri eins og flestir en reyni að forðast hann. Ég var að uppgötva nýjan morgunverð sem er stappaður banani og steikt egg. Ég hræri saman eggið, set banana saman við og steiki eins og lummu. Þetta er svaka gott. Annars hefur Helga Sigurðardóttir oft hjálpað mér í eldhúsinu þótt maður þurfi að skera aðeins niður sykurinn í uppskriftunum hennar.“

Ballettdansari

Heiðar er forfallinn óperu- og ballettunnandi. Hann lærði ballett á yngri árum.

„Ég byrjaði of seint í ballett. Var sveitapiltur og það var engin ballettkennsla í sveitinni. Það kom því aldrei til greina að ég yrði atvinnumaður. Ég kynntist ballerínum í gamla daga í gegnum fyrir­sætustörfin. Þegar ég sagði frá áhuga mínum sögðu þær mér að kaupa sokkabuxur og mæta. Það vantaði alltaf karldansara. Helgi Tómasson var að flytja utan þegar ég byrjaði í ballett. Eldri ballerínur höfðu dansað með honum og andi hans sveif alltaf yfir vötnum. Hann var goðið. Ég fór tvisvar að sjá San Francisco ballettinn í Hörpu núna í vikunni og fannst það alveg einstök upplifun.“  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×