Lífið

Hreinsa fjörurnar norður í Fjörðum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Þyrlur munu koma að góðum notum við að ferja rusl og fólk.
Þyrlur munu koma að góðum notum við að ferja rusl og fólk. Mynd/Jökull Bergmann
Fjörur við Eyjafjörðinn utanverðan að austan og í Fjörðum verða hreinsaðar næsta sunnudag. Þyrluskíðafyrirtækið Arctic Heli Skiing stendur fyrir því í samvinnu við sveitarfélagið, fyrirtæki og félagasamtök á svæðinu.

Jökull Bergmann hjá Arctic Heli Skiing segir mikið af plastúrgangi í fjörunum, sem ekki einungis stingi í augu í þessari óspilltu náttúruparadís heldur hafi einnig afar slæm áhrif á lífríki svæðisins.

„Það er þekkt staðreynd að plastúrgangur í sjó dregur fjölda lífvera til dauða á hverju ári, meðal annars fugla sem flækjast í netadræsum og hvali sem innbyrða plaststykki og deyja hægum dauðdaga,“ bendir hann á.

Þyrlur frá fyrirtækinu Norðurflugi verða nýttar til að ferja mannskap og stórsekki undir rusl á afskekkta staði, svo sem Kjálkanes og Keflavík, en hvalaskoðunarfyrirtækið Arctic Sea Tours á Dalvík mun flytja meginþorra mannskaps frá Grenivík í Þorgeirsfjörð og þaðan mun fólk dreifa sér yfir í Hvalvatnsfjörð með aðstoð björgunarsveitarinnar Ægis á Grenivík. Þyrlurnar flytja síðan ruslið til baka.

Gleðin verður við völd í þessu verkefni að sögn Jökuls. „Í lok dags verður slegið upp grillveislu á Þönglabakka í Þorgeirsfirði þar sem Kjarnafæði og veitingastaðurinn Kontorinn á Grenivík leggja til steikur að hætti hússins,“ lýsir hann og telur líklegt að heiðursfólkið í Ferðafélagi Fjörðunga og Karlafélaginu Hallsteini á Grenivík beri fram veitingarnar.



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júní 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×