Lífið

Hinn bíllausi lífsstíll

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Þórunn Antonía er ein þeirra sem lifir bíllausum lífsstíl
Þórunn Antonía er ein þeirra sem lifir bíllausum lífsstíl Vísir/Valgarður
Hrafn Jónsson hefur dregið það í mörg ár að taka bílpróf og sníkir gjarnan far hjá kærustunni.Vísir/Hrafn Jónsson
Það er til það fólk sem kýs að eiga ekki bíl og notar þá ýmis ráð, svo sem almenningssamgöngur, hjól eða einhvern annan „óhefðbundinn“ ferðamáta til að komast leiðar sinnar. Fréttablaðið heyrði í nokkrum einstaklingum sem temja sér þennan lífsstíl og fékk að vita hvernig þau tækla daglegt líf án aðstoðar bifreiðarinnar.

Hrafn Jónsson pistlahöfundur

Af hverju ertu bíllaus?

Ég hef aldrei tekið bílpróf. Ég tók alla ökutímana og báða ökuskólana þegar ég var 17 ára en mætti svo aldrei í prófið. Svo auðvitað fyrndist þetta að lokum og þetta klúður varð góð saga í partíum til að brjóta ísinn. Svo allt í einu varð ég þrítugur og bílprófsleysið varð alltaf sorglegri og sorglegri saga, þannig að ég fór og tók aftur alla ökutímana. Nú eru tvö ár liðin síðan það gerðist og ég ekki enn búinn að taka bílprófið. Niðurstaðan er líklega sú að það er eitthvað mjög djúpt og alvarlegt að mér.

Hvernig kemstu milli staða?

Ég er annálaður labbari. Finnst gott að ráfa um göturnar eins og ógæfumaður. Þegar ég nenni ekki að labba þá hjóla ég og þegar það eru of margar brekkur eða of mikið rok til þess að ég nenni að hjóla þá tek ég strætó. Þá sit ég fremst og hlusta á Útvarp Sögu með bílstjóranum. Íslendingar eiga það til að ofmeta vegalengdir gífurlega; það eru til dæmis bara 6 km á milli sundlaugar Seltjarnarness og Laugardalslaugar. Pælið í því.

Ertu mikið að sníkja far?

Nei, ég er svo hógvær og lítillátur. Ég læt hins vegar Brynhildi, kærustuna mína, grimmt fá lánaðan bíl foreldra sinna til þess að hún geti keyrt okkur um og útréttað. Það er svo gott að vera farþegi – maður þarf ekki að hafa áhyggjur af neinu nema útvarpinu og miðstöðinni.

Kostir og gallar

Það er auðvitað frábært að eyða ekki peningum í þetta. Nú hef ég aldrei átt bíl né veit neitt um bíla, en mér skilst að það kosti ca. þrjár milljónir á mánuði að reka bíl. Þetta eru bara peningar sem ég á ekki. Svo er það að ganga á milli staða stundum eina hreyfingin sem ég fæ á degi hverjum og guð veit að maður er ekkert að yngjast. Helstu ókostirnir eru að Brynhildur er alltaf að skamma mig fyrir að vera ekki með bílpróf því hún þarf alltaf að keyra mig út um allt – þannig að ef ég klára þetta ekki fljótlega fer hún líklega frá mér. Svo væri líka gaman að geta skotist út úr bænum þegar manni dettur í hug. Og í IKEA.



Þórunn Antonía Magnúsdóttir nýtur þess að spjalla um allt og ekkert við leigubílstjóra. Vísir/Stefán
Þórunn Antonía Magnúsdóttir söngkona

Hvernig kemstu á milli staða?

Ég labba mikið og fæ oft far ef mér er boðið það og ég neita því sjaldan, en líka með leigubíl ef ég þarf og það er mun ódýrara að taka leigubíl nokkrum sinnum í mánuði heldur en að reka bíl. Ég vildi óska að ég ætti hjól með barnastól, það er efst á óskalistanum fyrir sumarið. Ég lendi samt alltaf í því að hjólunum mínum er stolið sem eru leiðindi. Eftir að síðasta var stolið sem ég er nokkuð viss um að hafi verið sami aðilinn og seldi mér það (á bland) þá gafst ég upp.

Ertu mikið að sníkja far?

Stundum en aðeins hjá nánustu, ég húkka ekki far né spyr fólk á Face­book eða í skutlaragrúppum.

Kostir eru þeir að ég er ekki að menga plánetuna alla daga alltaf, ég er í góðu formi af labbinu og fólk gerir óspart grín að mér þannig að húmorsgildið er hátt. Svo eru leigubílstjórar yfirleitt alveg yndislegir og ég á við þá og þær fallegar innihaldslausar samræður um daginn og veginn og djúpar og merkilegar um lífið og tilveruna. Ég hef svo gaman af fólki og sögum.

Gallinn er sá að allir keyra á Íslandi og það eykur vetrarkvíða minn gífurlega að hugsa til þess að þurfa að stunda mikið útilabb í snjó. Þess vegna fer ég ekki mikið út úr húsi á veturna en þess í stað skrifa ég mikið af tónlist því eymd og einsemd eru uppáhaldsfæða skáldagyðjunnar. Ef ég væri árinu eldri myndi ég kannski bara bjóða mig fram til forseta og fá einkabílstjóra og þá myndi allt dæmið ganga upp ásamt því að mitt fyrsta verk væri að setja glerhjúp yfir Reykjavík með pálmatrjám og jafnvel bara banna bíla og allir væru sjúklega glaðir að hjóla í sólinni. Ég myndi samt vilja fá glæsihjól til að þeysast um með fjaðurskreyttan barnastól fyrir barnið mitt og auðvitað hjálma og krefjast þess að forsetabíllinn yrði umhverfisvænn og rafknúinn.

Logi Pedro Stefánsson ætlar að fá sér skellinöðru enda mikill áhugamaður um slík ökutæki. Vísir/Ernir
Logi Pedro Stefánsson tónlistarmaður

Af hverju ertu bíllaus?

Ég er bíllaus af því að ég þurfti í raun ekkert á bíl að halda, ég bý í miðbænum og það er alltaf stutt að fara. Ég byrjaði fyrir löngu á bílprófinu en fannst það ekkert svo spennandi að klára það og það fékk bara að sitja á hakanum á meðan ég gerði aðra hluti. Ætla samt að klára það núna á næstu vikum og kaupa mér litla skellinöðru.

Hvernig kemstu á milli staða?

Þegar það er eitthvert megastúss í gangi þá fæ ég oftast far eða tek leigubíl

Ertu mikið að sníkja far?

Vissulega þarf ég oft að fá far og biðja um greiða, Reykjavík er líka aðeins of dreifð og bílamiðuð borg.

Í raun er þetta frekar leti en t.d. sparnaður að vera ekki á bíl. Ég einfaldlega hafði ekki nógan áhuga á því að fá bílpróf til þess að setjast niður og undirbúa mig fyrir bóklega prófið. Samt er ég mjög hrifinn af fallegum bílum og farartækjum. Í raun er það áhugi minn á fallegum skellinöðrum og léttbifhjólum sem knýr mig áfram í að klára þetta. Vespu­sumarið ’16 fer í gang með stæl.

Þórdís Nadia Semichat uppistandari hefur engar áhyggjur af "road rage". Vísir/Vilhelm
Þórdís Nadia Semichat uppistandari

Af hverju ertu bíllaus?

Ég er ekki með bílpróf. Þó svo að ég væri með próf ætti ég líklegast ekki bíl. Ég er barnlaus og bý miðsvæðis þar sem allt er í stuttu göngufæri.

Hvernig kemstu á milli staða?

Ég labba, hjóla eða tek strætó. Reyndar flýg ég stundum.

Ertu mikið að sníkja far?

Ég sníki aldrei far að fyrra bragði, þigg það samt með glöðu geði ef einhver býðst til þess að keyra mig langa vegalengd.

Kostir og gallar

Gallinn er auðvitað sá að ef ég á pantaðan læknistíma á vinnutíma eða þarf að sækja um nýtt vegabréf hjá sýslumanninum í Kópavogi, þá tekur það mig helmingi lengri tíma með strætó heldur en ef ég væri á bíl. Kosturinn er að ég labba frekar mikið sem er auðvitað gott fyrir andlega og líkamlega heilsu. Ég þarf ekki að hafa áhyggjur af umferð eða „road rage“. Ég nýti tímann í strætó eða á röltinu til þess að hlusta á góða tónlist eða hlaðvarp sem ég myndi annars ekki gera.

Þeir sem verða gangandi í sumar munu svo vafalaust vera með þetta í eyrunum einu sinni eða tvisvar:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×