Lífið

Ólafur Ragnar þakklátur Cristiano Ronaldo og kærastan vill Birki Bjarna aftur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Birkir fagnar markinu gegn Portúgal.
Birkir fagnar markinu gegn Portúgal. Vísir/Vilhelm
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, og Dorrit Moussaieff voru viðstödd 1-1 jafnteflið gegn Portúgal í Saint-Étienne. Ólafur Ragnar segist þakklátur Cristiano Ronaldo fyrir ummæli hans eftir leikinn. Þetta kemur fram í Wall Street Journal.

„Ég held við ættum að vera honum þakklát fyrir að hafa gefið Íslandi auka vídd af athygli,“ segir Ólafur Ragnar.

Í umfjölluninni segir sjónvarpskonan Steiney Skúladóttir frá því að meðleigjandi hennar vilji ná eyrum markaskorarans Birkis Bjarnasonar. Hún sé ekki bara hrifin af sókndjarfa kantmanninum heldur var hún einu sinni kærastan hans.

Birkir flutti til Noregs þegar hann var ellefu ára þannig að ekki hefur verið um alvarlegt samband að ræða heldur er Steiney að slá á létta strengi í samtali við erlenda miðla. 

„Þau hættu aldrei almennilega saman,“ segir Steiney. „Kærasti hennar hefur skilning á þessu. Þeim (Birki) er ætlað að vera saman.“

Ólafur Ragnar hélt á ráðstefnu um orkumál í Brussel eftir leikinn í Saint-Étienne þar sem hann sagði að úrslit sem þessi hefðu aldrei náðst ef ekki hefði verið fyrir íslenska orku sem notuð er til að hita upp íslensku knatthúsin.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×