Viðamikil leit stendur nú yfir að tré, flestöll tré koma til greina og lofar Hafsteinn Gunnar rausnarlegri greiðslu fyrir tréð sem verður fyrir valinu.
„Helst viljum við garðahlyn eða silfurreyni en þó koma allar tegundir til greina, þ.e.a.s. hafi tréð rétt útlit. Í grunninn erum við að leita að krúnumiklu tré, sem er um það bil 8 til 10 metrar á hæð, með þykkum bol,“ segir Hafsteinn Gunnar og bætir við að hafi einhver í huga að fella tré í sinni eigu, sé um að gera að hafa samband og greitt verði rausnarlega fyrir tréð. Hafa má samband á netfangið katlathor@gmail.com.

Smám saman dregst hann inn í deilur foreldranna við nágranna þeirra um gamla fallega tréð. Edda Björgvinsdóttir og Sigurður Sigurjónsson leika foreldrana, en með hlutverk nágrannanna fara þau Þorsteinn Bachmann og Selma Björnsdóttir.
„Myndin er dramatísk þó hún sé líka fyndin, þannig að vonandi fær fólk að sjá aðrar hliðar á leikurunum heldur en það sem þeir eru áður þekktir fyrir,“ segir Hafsteinn Gunnar.
Hvaðan spratt hugmyndin að handriti myndarinnar?
„Handritið er eftir mig og Huldar Breiðfjörð, en mér finnst nágrannadeilur mjög heillandi fyrirbæri. Þær snúast yfirleitt um það sem skiptir engu máli í stóra samhenginu, en geta orðið mjög sorglegar og ömurlegar, en líka absúrd fyndnar á sama tíma. Í nágrannadeilum kristallast það hvernig við umgöngumst annað fólk, hvað það er að búa í samfélagi með öðrum, og það má segja að þær geti bæði dregið fram það besta og versta í fólki,“ segir Hafsteinn Gunnar, spenntur fyrir tökunum sem hefjast í lok júlímánaðar.