Lífið

Dorrit hristi Ara Frey eftir leik

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gleðin var ósvikin í leikslok að loknu fræknu jafntefli strákanna okkar gegn Portúgölum á Stade Geoffroy-Guichard í gærkvöldi. Meðal gesta á leiknum voru forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff. Eins og svo oft áður virðist Dorrit hafa stolið senunni.

Vinstri bakvörðurinn Ari Freyr Skúlason birti mynd á Facebook-síðu sinni í hádeginu þar sem forsetafrúin er komin inn á völl að fagna með strákunum okkar. Ari Freyr lagði mikla orku í leikinn og var vafalítið örmagna í leikslok eftir mikla vinnu.

Samkvæmt heimildum Vísis var Stefán H. Stefánsson sjúkraþjálfari að hrista fæturna á Ara Frey þegar Dorrit kom og spurði hvort hún mætti prófa. Stefán sagði að sjálfsögðu já.

Miðað við myndina sem Ari Freyr birti var Dorrit ekkert að tvínóna við hlutina heldur gekk beint til verks og hristi fætur Ara Freys og brosti út að eyrum á meðan myndin var tekin.

Dorrit hefur áður stolið senunni þegar íslenskt landslið hefur unnið til afreka á erlendum vettvangi en frægasta dæmið er líklega ummælin „Ísland er stórasta land í heimi“ sem féllu á Ólympíuleikvanginum í Peking árið 2008.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×