Lífið

Mér til undrunar andaði stúlkan

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég átti alltaf mína ofurhetju,“ segir Hekla hrærð.
"Ég átti alltaf mína ofurhetju,“ segir Hekla hrærð. Vísir/Stefán
Sumir krakkar búa sér til ímyndaðar ofurhetjur í huganum en ég þurfti þess aldrei, ég átti mína ofurhetju og hún var alvöru,“ segir Elín Hekla Klemenzdóttir móttökuritari brosandi og horfir aðdáunaraugum á Kjartan Magnússon, lækni og lífgjafa sinn. Hún er stödd á heimili hans í Garðabæ, ásamt tveimur af þremur börnum Kjartans, þeim Sveini lækni og Júlíönu fiðluleikara.

Kjartan og María, skurðhjúkrunarfræðingur og vinkona hans, hafa lagt dýrindis veisluföng á borð. Það er hátíð, haldin til að fagna endurfundum Heklu og Kjartans í tilefni af upprifjun hans á því þegar hann sá hana fyrst á dimmu haustkvöldi árið 1960.

Þá var hún innvafin í bómullarstranga, agnarsmá enda nýkomin í heiminn þremur mánuðum á undan áætlun, en andaði – og hann ákvað að freista þess að glæða lífsneista hennar.

Frá þessari reynslu segir hann í grein í nýútkomnu hefti Læknablaðsins og rifjar þá sögu líka fúslega upp fyrir blaðamanni Fréttablaðsins sem er fluga á vegg í partíinu.





sga
Lítill búkur í bómullarvafningi

„Ég bjó á Selfossi um tíma í byrjun sjöunda áratugarins með konunni minni, Snjólaugu Sveinsdóttur tannlækni, og börnum okkar þremur. Var bara áhyggjulaus eitthvað að dunda seint um kvöld þegar læknirinn á Hellu hringdi og bað mig liðsinnis. Hann var staddur á Hólum, efsta bænum á Rangárvöllum. Erla, dóttir hjónanna þar, sem reyndar var flutt á Selfoss en var í heimsókn hjá foreldrum sínum, hafði misst fóstur, komin sex mánuði á leið. Fylgjan sat hins vegar föst. 

Ég var sérfræðingur í fæðingarhjálp og fannst auðvitað sjálfsagt að reyna að leysa úr þessu vandamáli svo ég fékk lögregluna til að keyra mig í myrkrinu þarna upp eftir og var kominn að Hólum um miðnætti. Þar var ekkert rafmagn og því var skuggsýnt innanhúss en hins vegar vel hlýtt.

Mér gekk ágætlega að losa fylgjuna og Erla var sæmilega frísk en frekar döpur eins og eðlilegt var. Svo vorum við ferðafélagarnir búnir að þiggja kaffi og meðlæti í eldhúsinu og ætluðum að fara að kveðja þegar Haraldur bóndi segir: „En hvað á að gera við barnið?“

Mér hafði skilist í símanum að um fósturlát væri að ræða en nú var mér vísað á hvítan bómullarvafning sem var á dívan í herberginu hjá Erlu og inni í honum var ofurlítil stúlka. Líkaminn var líkastur fjaðralausum kjúklingi og andlitið eldrautt og grett, en mér til undrunar andaði hún. Ég fékk leyfi móðurinnar til að taka hana með til Selfoss. Því var hún vafin aftur inn í bómullina og henni komið fyrir í kassa undan skóm númer 43.

Ég settist í farþegasætið á bílnum og hélt kassanum á lofti með útréttum höndum til að hann hristist sem allra minnst þó vegurinn væri holóttur.“

 

Mjólkinni sprautað niður í maga

 

Ferðin varð árangursríkari en Kjartan óraði fyrir því fóstrið sem hafði yfirgefið móðurkvið þremur mánuðum fyrir tímann er sem sagt í dag þessi alheilbrigða og glaðlega þriggja barna móðir sem stödd er í stofunni hans – hún Hekla.

Þar sem við sitjum til borðs er Kjartan spurður hvaða hugsanir hafi brotist um í honum í bílnum á leið til Selfoss.

„Ég hafði aldrei lent í neinu svipuðu áður en reyndi auðvitað að sjá fyrir mér hvaða möguleikar væru í stöðunni og beita rökhugsun sem er mikilvægast við svona aðstæður.“

Hann segir engan súrefniskassa hafa verið til á Selfossi á þessum tíma. Þeir hafi hins vegar verið komnir á Landspítalann en þar hafi fólk samt verið í vandræðum. „Það var svo erfitt að tempra súrefnið í kössunum og það gat farið illa með sjónina í börnunum,“ lýsir hann og bætir við brosandi að Hekla hafi, þegar upp var staðið, verið heppin að vera bara sett í skókassa!

Þegar við komum á Selfoss fékk Hekla sérherbergi á sjúkrahúsinu sem þá var starfrækt í íbúðarhúsi á tveimur hæðum,“ rifjar Kjartan upp. „Þar stungum við rafmagnsofni með þremur strengjum í samband til að fíra upp og líka hraðsuðukatli með vatni til að fá góðan raka. Svo var þessi örsmái líkami lagður nakinn í tandurhreint sjúkrarúm sem var ætlað fyrir fullorðna en ekkert breitt ofan á hann.

Auðvitað varð að næra litla krílið og ég var svo heppinn að ein kona lá inni á spítalanum sem var nýbúin að fæða og hjá henni fékk ég strax brjóstamjólk.“ Hann kveðst hafa komið mjólkinni ofan í barnið með því að þræða örmjóa slöngu niður í kok þess og ofan í maga. „Þetta var slanga sem var ætluð til að setja upp þvaglegg en þarna virkaði hún eins og sonda,“ segir hann og kveðst hafa sprautað nokkrum millilítrum af mjólk niður um slönguna og endurtekið það á þriggja tíma fresti.

Kjartan viðurkennir að lífshorfur litlu stúlkunnar hafi verið litlar í byrjun. „Hekla barðist fyrir lífi sínu í marga sólarhringa, fyrirburaeinkennin voru greinileg á líkamanum og aðstæðurnar auð­vitað mjög frumstæðar. Hún var 1.000 grömm í upphafi, fjórar merkur, og fór aðeins niður fyrir þá þyngd um tíma en svo braggaðist hún og það var alveg dásamlegt að fylgjast með henni. Það var líka mikil alúð lögð í umönnun hennar á spítalanum. Allir vonuðu það besta.

Við fengum mjólk handa henni hjá konum á Selfossi sem voru með börn á brjósti þannig að samhjálpin var mikil. Smám saman hættum við með sonduna og sú stutta fór að taka við sjálf.“

Hekla hugsanlega örlagavaldur

Sveinn, sonur Kjartans sem er sérfræðingur í fyrirburafæðingum, segir ráðstafanir föður síns við þessar aðstæður hafa allar verið hárréttar og skipt sköpum fyrir Heklu. Hann var níu ára þegar þessi atburður átti sér stað og man vel eftir honum.



„Ég fékk oft að horfa á þessa pínulitlu stúlku í stóra rúminu í gegnum gler. Enginn fékk að fara inn til hennar nema fólkið sem sinnti henni. Mér þótti átakanlegt að sjá hana gráta og auðvitað hefur öllum fundist það en jafnframt var það hreystimerki og þannig hreinsaði hún og styrkti lungun.“

Sveinn þvertekur ekki fyrir að Hekla sé áhrifavaldur í lífi hans því hann valdi sér fyrirburafæðingar sem sérgrein í læknisfræðinni og starfar nú við þær á Landspítalanum. Það gerir dóttir hans líka. „Ég hef oft hugsað um það að kannski sé það einmitt þessi stelpa sem sé orsök þess,“ segir hann brosandi og bendir á Heklu.

 

 



En hvað um foreldrana. Fengu þeir ekki að fylgjast með þessari litlu dóttur sinni sem flýtti sér svona í heiminn? Kjartan svarar því:

„Auðvitað fylgdust þeir vel með en af því að Hekla var ekki í súrefniskassa var hún ansi óvarin fyrir sýkingum og ónæmiskerfi fyrirbura er veikt. Því var hún í einangrun og einungis þeir sem sinntu henni máttu umgangast hana, eins og Sveinn segir. Það var því ekki fyrr en eftir þrjá mánuði sem foreldrarnir máttu taka við henni. Þá var hún komin í eðlilega fæðingarþyngd og var hin sprækasta.“

Kjartan segir litlu stúlkuna strax hafa verið kallaða Heklu af starfsfólki spítalans. „Ég held það hafi verið Snjólaug, kona mín, sem fyrst nefndi hana það. Síðar var hún svo skírð Elín Hekla en alltaf kölluð Hekla.“ Hann kveðst hafa fylgst vel með henni og átt afar góð samskipti við fólkið í Hólum eftir þetta. „Strákarnir mínir, bæði Sveinn og Jóhann, voru til sumardvalar þar mörg næstu ár og fleiri drengir í fjölskyldunni og Júlíana var á næsta bæ, Næfurholti. Í mínum huga er fólkið á þessum bæjum afburðafólk.“

Hekla rifjar upp þegar Jóhann kom fyrst að Hólum. Hann er ári eldri en hún og þau voru send saman eftir kúnum fyrsta kvöldið hans í sveitinni.

„Ég ákvað að virða Jóa ekki viðlits en þegar ég gjóaði á hann augunum tók ég eftir að honum var algerlega slétt sama. Það fannst mér svo töff hjá honum að ég tók hann í sátt. Við urðum þvílíkir vinir að við grétum alltaf bæði þegar hann fór heim á haustin.“

Hún er líka hrærð yfir þessari stund með fjölskyldunni, þó Jóhann vanti reyndar í hópinn. „Ég er svo þakklát fyrir að hafa verið boðin hingað og að fá að heyra söguna af fæðingu minni í fyrsta sinn af munni hetjunnar minnar.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. júní 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×