Lífið

Loðinn Hans Óli?

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Kannski verður næsta ævintýri Indiana Jones jólamynd?
Kannski verður næsta ævintýri Indiana Jones jólamynd? Vísir/Getty
Er þetta Loðinn eða hárugur Harrison Ford? Leikarinn góðkunni sem þekktastur er fyrir hlutverk sín sem Hans Óli í Stjörnustríði og sem fornleifafræðingurinn Indiana Jones var nær óþekkjanlegur þegar hann mætti á viðburð þar sem kvikmyndatónskáldið John Williams var heiðrað í gær.

Um er að ræða árlegan viðburð hjá American Film Institute þar sem einhver úr kvikmyndaiðnaðinum er heiðraður fyrir framlag sitt til kvikmynda. Að þessu sinni var það tónskáldið sem samdi tónlistina fyrir nær allar þekktustu myndir Ford sem og fyrir Superman, E.T. og Jaws svo fátt eitt sé nefnt.

Harrison Ford var einn þeirra sem hélt ræðu til heiðurs félaga sínum en þegar hann mætti skartaði hann þessu fína jólasveinaskeggi. Líklegast hefur skeggvöxturinn verið fyrir hans næsta hlutverk en tökur hefjast bráðlega á framhaldsmynd Blade Runner frá 1982. Þar mun hann endurtaka hlutverk einkaspæjarans Rick Deckard sem hafði það að atvinnu í fyrri myndinni að hafa uppi vélmenni í mannsmynd og koma þeim fyrir kattanef.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×