Bílar

Löggan í LA fær 100 BMW i3 rafmagnsbíla

Finnur Thorlacius skrifar
BMW i3 lögreglubíll í Los Angeles.
BMW i3 lögreglubíll í Los Angeles.
Ráðamenn í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum erum þekktir fyrir að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stuðla að umhverfisvernd og þar eru hæstu endurgreiðslur til þeirra sem kaupa umhverfisvæna bíla í landinu. Það kemur því ef til vill ekki á óvart að lögreglan í Los Angeles hafi tekið í sína þjónustu 100 rafmagnsbíla og það af gerðinni BMW i3.

Þeir munu þjóna lögreglunni í þeim störfum sem ekki teljast til neyðartilfella. Borgarstjórinn í Los Angeles, Eric Garcetti segir að kaupin á bílunum sé lýsandi fyrir hvað hið opinbera getur gert til að stuðla að umhverfisvernd og í leiðinni leiða þá þróun í landinu.

Í leiðinni segir hann að lögreglan spari umtalsverða fjármuni því ódýrara sé að reka þessa bíla heldur en þá sem fyrir voru og voru í formi bíla með brunavélar. Fyrir á lögreglan í Los Angeles Tesla Model S bíla sem notaðir eru í sama tilgangi. Bílarnir frá BMW eru sérútbúnir fyrir lögregluna og hefur BMW sett upp hraðhleðslustöðvar fyrir þá í lögreglustöðvum borgarinnar.






×