Styrkurinn er svo hrikalegur, en samt er svo ofboðslega mikill að stundum getur hann verið hálf hættulegur. Þú átt það til að nota hala sporðdrekans að stinga sjálfan þig, hversu ömurlegt er það? Þú þarft að breyta um taktík, og nota þennan styrk þinn, til að efla allt sem að þig vantar. Opnaðu hjartað þitt, því að heimurinn bíður eftir þér. Ekki taka vini þína eða neina í kringum þig sem sjálfsagðan hlut, ekkert er sjálfsagt. Þú þarft að nota kraftinn þinn til að efla vini þína, vegna þess að með því eflir þú sjálfan þig.
Breyttu orðunum þínum, hentu út slæmum venjum, því það er svo margt sem er bara vani sem heldur manni svo ógeðslega föstum, að ekkert nýtt gerist. Vaninn er stundum það besta sem getur komið fyrir þig, en yfirleitt er vaninn það versta. Þú þolir ekki meðalmennsku og verður pirraður þegar þér finnst ekkert vera að gerast. Það er þitt að stíga fyrsta skrefið og þá mun alheimurinn hjálpa þér. Ekki hugsa allt frá upphafi til enda, það er ekki þitt að stjórna öllu.
Þú ert að fara taka á móti gjöfunum, svo mundu að hlakka til. Ástin mun breyta lífi þínu því hún skiptir þig svo miklu máli. Fjölskyldan skiptir þig svo miklu máli, og það að standa saman. En passaðu þig samt á að það er líka til ást sem eitrar, drepur og skemmir fyrir manni. Ekki hoppa út í eitthvað sem virkar svo rosalega fallegt en er bara bölvuð vitleysa. Í öllu þessu skemmtilega tímabili sem framundan er virðist þetta geta átt sér stað, það er að segja ef þú tekur ekki réttar ákvarðanir. Rétt ákvörðun er í 99% tilvika sú hugsun sem kemur fyrst upp í hugann, síðan fer heilinn að breyta hugsuninni og koma með allt önnur skilaboð sem hjálpa alls ekki til. Þetta er nákvæmlega eins og með fótbolta, það þýðir ekki að hugsa málið þegar þú ert fyrir framan markið með boltann á tánni.
Það þarf að þora til að skora, er mottóið þitt í sumar.
Lífið er dásamlegt.
Frægir Sporðdrekar: Birkir Már Sævarsson landsliðsmaður, Dísa í World Class, Helga Braga Jónsdóttir leikkona, Björk Guðmundsdóttir söngkona, Scarlett Johansson leikkona, Whoopie Goldberg leikkona, Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir sjónvarpskona, Emmsjé Gauti rappari.