Þegar ég gekk út af Stade de France á sunnudagskvöldið vissi ég að það hafði eitthvað stórkostlegt gerst. Við höfðum tapað fyrir Frökkum og vorum úr leik. Draumur, sem hafði átt sér tæplega tveggja ára aðdraganda, var á enda. En það var ekki eins og það skipti í raun neinu máli. Við vorum á einhvern hátt búin að vinna. Klisjan um að við værum þegar sigurvegarar var í raun ekki fjarri sanni. Ég hef fylgst með íþróttum frá barnsaldri og vann meira að segja við að fjalla um þær um árabil. Þetta hef ég aldrei séð.
Þarna stóðum við, sennilega hátt í tólf þúsund Íslendingar, með vot augu í rigningunni og klöppuðum fyrir liðinu okkar. Þetta var eins og hetjusena í bíómynd. Allir farnir af vellinum, nema Íslendingar sem gátu ekki fengið nóg og vildu ekki sleppa þessu augnabliki.
Eftir leikinn, á leiðinni á lestarstöðina, var á engan hátt hægt að sjá að við hefðum tapað leik. Það var sungið, drukkið og farið yfir leikinn. Vissulega heldur meira yfir seinni hálfleikinn, en það var ekki eins og neinn væri reiður. Í mesta lagi: Það hefði verið gaman að byrja aðeins betur.
Bláa hafið
Að vera í bláa hafinu, syngjandi og hrópandi var ótrúlega gefandi. Það gaf manni tilfinninguna að vera hluti af einhvers konar heild. Maður upplifði sig sem skipaðan fulltrúa íslensku þjóðarinnar og á manni hvíldi sú borgaralega skylda að öskra sig hásan. Syngjandi sendiherra.
Við sameinuðumst um að lýsa því hvernig okkur leið þegar Ragnar tæklaði Vardy, Hannes varði frá Nani og Kolbeinn kom okkur yfir á móti Englendingum. Það er líka hressandi þegar maður áttar sig á því að laun andstæðinga Íslendinga í þessum tveimur síðustu leikjum, myndu standa undir öllum kostnaði við rekstur Landspítalans. Það setur þetta í samhengi.
Draumurinn
Fótbolti náði að sameina okkur. Fótbolti sem er löðrandi í spillingu og misrétti. Fótbolti sem hefur ákveðið að tvö næstu heimsmeistaramót fari fram í Rússlandi og Katar. En samt er fótbolti svo stórkostleg íþrótt. Uppspretta spennu og gleði, sigra og sorgar.
Þetta ferðalag var eins og draumur. Fallegur draumur sem við þorðum ekki alveg á trúa á. Margir hugsuðu bara: Ég vona að við töpum ekki öllum leikjunum. Eða jafnvel: Ég vona að við skorum að minnsta kosti mark. Fimm leikjum síðar, tveimur sigrum og tveimur jafnteflum, eru aðeins þrjú lið sem hafa skorað fleiri mörk en við. Við áttum fleiri marktilraunir gegn Frökkum en allir fyrri andstæðingar þeirra á mótinu – samanlagt!
Þessir leikir vöktu nokkuð sem hefur lítið farið fyrir síðustu ár. Það hefur þótt plebbalegt og dæmi um hallærislegan popúlisma: þjóðarstolt.
Við höfum ekki sameinast um neitt svo lengi. Eftir hrun varð þjóðarstolt nánast eins og skammaryrði. Gjarnan talað um þjóðarrembing ef einhver leyfði sér að nefna að sennilega væri eitthvað sérstakt við þessa þjóð sem hefði unnið ýmiss konar afrek – oft við erfiðar aðstæður. Það eina sem við höfum komið okkur saman um er að sundrast. Við höfum talað okkur niður og margir hafa nánast litið á það sem þegnskyldu að tala um hvað Ísland sé ömurlegt. Á stundum hefur maður nánast þurft að elta uppi útlending til að heyra eitthvað fallegt um landið og hvað Íslendingar séu nú merkileg þjóð.
Svo gerist þetta. Það þarf ekki annað en að horfa á Arnarhól, þar sem allir voru þegar liðið kom heim. Eða götur borgarinnar, þar sem enginn var þegar Ísland spilaði. Við fundum eitthvað til að sameinast um. Það er óháð stétt og stöðu. Óháð menntun og efnahag. Það þurfti fótboltalandslið til að fá okkur í fyrsta sinn í langan tíma til að viðurkenna að við erum stolt af því að vera Íslendingar.
Allt er bjart fyrir okkur tveim
því ég er kominn heim
Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.
Fastir pennar