Íslenski boltinn

Árni á leið aftur í Kópavoginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Árni í leik með Breiðabliki gegn FH sumarið 2014.
Árni í leik með Breiðabliki gegn FH sumarið 2014. vísir/arnþór
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Vísis er framherjinn Árni Vilhjálmsson á leið aftur til Breiðabliks frá norska liðinu Lilleström.

Árni, sem er 22 ára, er uppalinn hjá Breiðabliki og skoraði 22 mörk í 61 deildarleikjum fyrir Kópavogsfélagið áður en hann samdi við Lilleström í byrjun síðasta árs.

Árni hefur spilað sjö deildarleiki með Lilleström á þessu tímabili, þar af þrjá í byrjunarliði, en ekki tekist að skora mark. Hann skoraði tvö mörk í 14 deildarleikjum á síðasta tímabili.

Blikum hefur gengið illa að skora í Pepsi-deildinni í sumar en þeir hafa aðeins gert 10 mörk í níu leikjum. Framherjar liðsins, þeir Jonathan Glenn og Guðmundur Atli Steinþórsson, hafa verið ískaldir fyrir framan mark andstæðinganna í sumar og eiga enn eftir að skora mark í Pepsi-deildinni.

Breiðablik er í 4. sæti deildarinnar með 16 stig, fjórum stigum á eftir toppliði FH. Blikar féllu úr leik fyrir ÍBV í 8-liða úrslitum Borgunarbikarsins á sunnudaginn og töpuðu 2-3 fyrir Jelgava í fyrri leik liðanna í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn.

Seinni leikurinn fer fram í Lettlandi í dag og hefst hann klukkan 15:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×