Veiði

Núna er tíminn til að minnka flugurnar

Karl Lúðvíksson skrifar
Eins og veiðimenn þekkja vel þá koma veiðiflugur í öllum stærðum og gerðum en það er alltaf spurning hvenær það á að veiða á minnstu flugurnar.

Þar sem laxveiðitímabilið stendur nú sem hæst skulum við aðeins skoða hvað veiðimenn gera varðandi stærðir á laxaflugum.  Ár sem eins og Norðurá, Laxá í Kjós, Hrútafjarðará og Miðfjarðará eru mikið veiddar með litlum flugum og það á að vísu við um margar aðrar ár á landinu.  Litlar flugur gefa oft vel þrátt fyrir að árnar sýnist stórar og leikmaðurinn hugsar kannski með sér að laxinn þurfi stóra flugu í hylinn til að taka hana.  Það er ekki málið.

Lax virðist sjá afskaplega vel í vatni og það sem flestir veiðimenn upplifa er að með því að minnka flugurnar fá menn oft fleiri tökur en jafnframt virðist það stundum fylgja að fleiri laxar sleppa.  Við erum ekki að fara í umræðu um lit og lögum heldur bara stærð en auðvitað skipta hinir þættirnir varðandi útlit flugunnar miklu máli.  Stærðin getur þó stundum verið eini áhrifavaldurinn að því hvort laxinn taki eða ekki og yfirleitt er það hugsunin um að minnka fluguna til að bæta árangur.  Það er ekki jafn oft talað um að stækka fluguna til að ná árangri þó vissulega eigi það stundum við en ég held að það sé óhætt að fullyrða að það að minnka fluguna hefur meiri áhrif til árangurs en að stækka hana.

Hvað er þá lítil fluga?  Lítil fluga myndi t.d. skilgreinast í stærðunum #14-18 í laxaflugum og finnst mörgum þetta orðið ansi smátt.  Málið er bara að þeir gefa og það oft ansi vel.  Það ættu allir veiðimenn að eiga gott úrval af flugum í þessum stærðum vegna þess að ef þú lendir í því að veiða á sem er orðin vatnslítil oft eini kosturinn að minnka fluguna ef það á að eiga smá séns í að setja í fisk.






×