Sport

Irina skrifaði nýjan kafla í fimleikasögunni en komst ekki í úrslit

Óskar Ófeigur Jónsson í Ríó skrifar
Irina Sazonova í æfingum á gólfi í kvöld.
Irina Sazonova í æfingum á gólfi í kvöld. Vísir/Anton
Irina Sazonova komst ekki áfram í úrslit í fjölþraut kvenna en hún varð í kvöld fyrsta íslenska fimleikakonan til þess að taka þátt í Ólympíuleikum.

Það var vitað fyrirfram að það yrði mjög erfitt fyrir íslensku fimleikakonuna að komast í 24 manna úrslit og hana vantaði talsvert upp á að berjast fyrir alvöru fyrir sæti í úrslitunum.

Irina keppti meðal annars í sama hluta og bandaríska og hollenska landsliðinu en Irina var í hópi með fimleikakonum frá Nýja-Sjálandi (Courtney McGregor) og Egyptalandi (Sherine Elzeiny).

Irina Sazonova fékk 13.800 í einkunn fyrir stökkið, 13.500 í einkunn fyrir æfingar á tvíslá, 12.900 í einkunn fyrir æfingar á jafnvægisslánni og 13.000 í einkunn fyrir æfingar á gólfi.

Irina Sazonova ætlaði sér að reyna að ná 54.000 stigum en hún endar með 53.200 stig. Irina stóð sig vel og gerði engin stór mistök. Þetta er bara ekki nóg til að tryggja sig inn í úrslit.

Irina er eins og er í 31. sæti en það er ekki lokasæti hennar. Það er einn hluti eftir og þar lækkar Irina örugglega á listanum.

Irina hefur þar með lokið keppni á Ólympíuleikunum en þetta var sögulegt kvöld fyrir íslenska fimleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×